- Advertisement -

Andlegt hrun stjórnmálanna

Forseti Alþingis, yfirstrumpurinn, er með 1.826.273 kr. á mánuði, ráðherralaun fyrir að reka í gegn dagskrá þingsins, með þeim árangri sem þjóðinni er kunnur. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, er hins vegar með meira en sexföld lægstu laun.

Gunnar Smári Egilsson.

Eftir að hafa skoðað nokkuð launakjör ráðherra, þingmanna, borgar- og sveitarstjóra á undanförnum mánuðum varð ég gáttaður að sjá laun sumra ríkisforstjóra í úrskurði Kjararáðs. Og ekki vegna þess hvað þau voru há, heldur hvað þau voru lág í samanburði við það sem kjörnir fulltrúar hafa skammtað sér. Og það gefur tilefni til að blása út viðeigandi blæstri.
Af hverju er umboðsmaður skuldara með 925.856 kr. á mánuði þegar bert þingfararkaup almenns þingmanns, áður en allar aukasporslur leggjast ofan á, er 1.101.194 kr? Almennur þingmaður kemst upp með að gera ekki nokkurn skapaðan hlut af viti; getur fyllt daginn sinn af Facebook-skrifum, svari við tölvupósti og spjalli í matsal þingsins og greitt svo atkvæði í þingsal samkvæmt fyrirmælum formanns þingflokksins. Auðvitað eru til samviskusamir og duglegir þingmenn, en það get ég sagt ykkur, eftir að hafa fylgst með þingstörfum áratugum saman, að það heyrir frekar til undantekninga. Mestur tími þingmanna fer í taugaveiklaða könnun á stöðu sinni og möguleikum í gegnum samtöl við fólk, einkum aðra taugaveiklaða þingmenn sem eru jafn óöryggir með stöðu sína. Nefndarfundir eru vettvangur fyrir letingja sem vilja telja sér trú um að þeir séu að setja sig inn í mál. Þar sitja óundirbúnir þingmenn í hálfhring og hlusta á gesti, sem gjarnan vilja uppfræða þingmenn, en átta sig á við fyrstu spurningu að þetta er enginn vettvangur til slíks. Það heyrir til algjörra undantekninga að nefndir þingsins bæti þingmál eða leiðrétti. Algengast er að þær breyti þeim vegna krafna hagsmunasamtaka hinna ríku, sem stór hluti þingmanna telur sig vinna fyrir, og aðrir þingmenn hafa enga burði til að verjast. Þingmenn heyra því fátt af því sem sagt er á nefndarfundum og margir þeirra lesa ekki einu sinni innsend erindi. Þeir nota nefndarfundir til að auglýsa annað hvort gáfur sínar, réttsýni eða manngæsku; yfirleitt á svo einfeldningslegan máta að gestir átta sig á að þeir hafa ekkert af þessu. Það þarf ekki að fjalla um málstofu þingmanna, hana þekkja landsmenn.
En hvers vegna er þingmönnum borgað 175 þús. kr. meira í þingfararkaup en umboðsmaður skuldara fær fyrir að stjórna sinni mikilvægu stofnun? Umboðsmaður skuldara er yfirmaður 18 starfsmanna en almennur þingmaður hefur enginn mannaforráð og þarf í raun ekki að standa neinum skil á neinu, aðeins að verja stöðu sinnar innan síns flokks svo hann eigi möguleika á góðu sæti á framboðslista fyrir næstu kosningar. Alþingi greiðir síðan allan kostnað hans af því að sækja fundi, afmæli og aðra mannfagnaði þar sem hann getur komið sér í mjúkinn meðal flokksmanna.
Forseti Alþingis, yfirstrumpurinn, er með 1.826.273 kr. á mánuði, ráðherralaun fyrir að reka í gegn dagskrá þingsins, með þeim árangri sem þjóðinni er kunnur. Ofan á þetta leggst ráðherrabíll og allar þær sporslur sem ráðherrar hafa skammtað sjálfum sér. Forseti Alþingis hefur hin síðari ár orðið embætti fyrir þá þingmenn sem telji sig eiga rétt á ráðherradómi en annað hvort flokksmenn eða almenningur allur þolir engan veginn, fólk sem myndi fylla Austurvöll ef það yrði sett yfir ráðuneyti. Starf forseta Alþingis er því fremur fengur en staða; laun, status og fríðindi sem einhver flokkshestur telur sig eiga rétt á fremur en verkefni sem þarf að sinna.
Þessi flokkshestur fær vel rúmlega hálfri milljón meira á mánuði, sex milljónir á ári en forstjóri Landspítalans, stærsta vinnustaðar á landinu þar sem fram fer mikilvægasta starfsemin. Sá er með 1.294.693 kr. á mánuði. Það eru góð laun, meira en fjórföld lægstu laun. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, er hins vegar með meira en sexföld lægstu laun.
Þetta verðleikamat kjörinna fulltrúa, að stilla launum sínum ekki í hóf eða í takt við þann litla hrepp sem Ísland er; er eitt skýrasta merki þess að við búum í ræningjabæli. Kjörnum fulltrúum er alveg sama þótt launahækkanir til þeirra valdi reiðiöldu í samfélaginu, éti upp traust innan þess og grafi undan stjórnmálunum, afhjúpi að allt tal um jöfnuð og réttlæti fyrir kosningar er hjóm. Þetta er líka merki þess að stjórnmálastéttin hefur týnt erindi sínu. Í slíkri stöðu grípur fólk það sem það kemst yfir, þegar það veit ekki hvað í veröldinni VIÐ erum þá er aðeins ein miðja veraldarinnar; ÉG.

Gunnar Smári Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: