Við afgreiðslu á nýju lögum um almannatryggingar 2016/2017 lýsti ríkisstjórn Sigurðar Inga og Bjarna Benediktssonar því yfir, að lífeyrir aldraðra og öryrkja mundi hækka í 300 þúsund 1. jan 2018. En það hefur verið svikið. Aðeins 29% öryrkja fær 300 þús. kr á mánuði fyrir skatt ,þ.e. þeir sem búa einir. Hinir fá aðeins 239 þúsund. Enn færri meðal aldraðra fá 300 þúsund fyrir skatt eða 15-20%. Hinir fá aðeins 239 þús. Það eru aðeins einhleypir, sem fá 300 þúsund bruttó. Auk þess er á að líta, að skatturinn á eftir að hirða af því, sem fæst fyrir skatt tæp 20%. Það er því lítið eftir fyrir húsnæðiskostnaði og öllum útgjöldum. Eftir skatt fá þessir aðilar aðeins 243 þúsund kr. Giftirog þeir sem eru í sambúð fá aðeins 204 þús kr. eftir skatt.
Hækkun lífeyris í 300 þúsund á mánuði hefur reynst blekking. Stjórnarherrarnir eru búnir að flagga þessari „hækkun“ mikið. En í raun er það svo að aðeins hluti lífeyrisþega hefur fengið 300 þúsund. Það er ekki nóg með að aldraðir og öryrkjar séu sviknir um sömu hækkun og aðrir fá heldur reynist hækkunin, sem sagt er að þeir fái vera blekking. Skammarlegt.
Björgvin Guðmundsson.