„Þráhyggja þingmanns svokallaðs Miðflokks um góðgerðir við vogunarsjóði er hvort tveggja í senn, þráhyggja og misskilningur. Bankaskattur er álögur á lántakendur og er mál að linni,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokks, í grein sem birt er í Mogganum í dag.
Vilhjálmur rifjar upp að 62 þingmenn af 63 samþykktu bankaskattinn, hann einn var á móti.
Skaðlegur skattur
„Þegar stjórnmálamenn ætla að gera góðverk , snýst góðverkið upp í andhverfu sína. Sennilega er skattur sá er lagður var á skuldir banka, þ.e. 0,376% á skuldir þeirra, skaðlegasti skattur sem nokkur ríkisstjórn hefur lagt á,“ skrifar Vilhjálmur.
„Með einföldum samanburði á lánakjörum banka og lífeyrissjóða sést að bankar greiða ekki þennan skatt. Það eru lántakendur sem greiða þennan skatt.“
Greiddu 400 milljarða
„Vissulega var öðrum ætlað að bera hann, þ.e. kröfuhöfum í þrotabúum gömlu bankanna. Nú hafa þau þrotabú verið leyst upp með nauðasamningum og aðeins starfandi fjármálafyrirtæki innheimta þennan skatt af lánþegum. Þrotabúin hafa greitt um 400 milljarða í stöðugleikaframlag.“
Lántakendur greiddu „leiðréttinguna“
Vilhjálmjur kemur einnig að leiðréttingunni svokölluðu: „Ef alþingismenn bera umhyggju fyrir lánþegum, þá er einfaldast að leggja þennan skatt af strax. Verkefni því sem skattinum var ætlað að fjármagna, svokallaðri „leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána“, er lokið. Lántakendur greiddu það verkefni með 1% verðbólgu á ári í fjögur ár og ½% hærri raunvöxtum en ella, auk um það bil 0,4% álags vegna bankaskattsins hjá þeim sem skulduðu í bönkum. Slíkt var nú góðverkið!“