- Advertisement -

Verkafólk ógnar ekki efnahag Íslands

Við hljótum að hafna stöðugleika sem er ákvarðaður út frá hagsmunum fjármagnseigenda og valdastéttar samfélagsins. Við höfum verið beitt rangindum.

„Þegar við horfum yfir þróun efnahagsmála síðustu áratuga er ljóst að efnahag Íslands stendur ekki ógn af verkafólki. Þvert á móti eru það þau með mestu efnahagslegu og pólitísku völdin sem slíta með hömluleysi sínu samfélagssáttmálann í sundur. Þau hafa fengið að skammta sér án hófs af sameiginlegum gæðum og með því orsakað þann mikla óróa sem nú ríkir,“ segir meðal annars í leiðara Sólveigar önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, í nýjasta tölublaði félagsblaðs Eflingar.

Síðar í leiðaranum skrifar Sólvegi Anna:

„Og enn á ný heyrum við rammfalskan sönginn um stöðugleika, nú þegar verka- og láglaunafólk krefst hærri launa og mannsæmandi lífskjara. Á sama tíma hækka laun æðstu stjórnenda einkafyrirtækja stjórnlaust og yfirstétt opinbera kerfisins fær úthlutað því sem næst mánaðarlaunum þeirra sem strita við umönnunarstörf fyrir að sitja einn fund!

Við hljótum að hafna stöðugleika sem er ákvarðaður út frá hagsmunum fjármagnseigenda og valdastéttar samfélagsins. Við hljótum að hafna stöðugleika sem nærir vaxandi ójöfnuð, sem grefur undan velferðarkerfinu, sem nærist á aukinni skattbyrði verkafólks svo að auðstéttin geti komið sér undan samfélagslegri ábyrgð, sem grefur undan efnahagslegu öryggi hinna vinnandi stétta á meðan auðstéttin fær óáreitt að skrifa nýjan samfélagssáttmála, byggðan á óréttlæti og arðráni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Við höfum verið beitt rangindum. Við ætlum að semja upp á nýtt; á okkar forsendum, á grundvelli jöfnuðar og sanngirni, þar sem mikilvægi þeirra sem vinna vinnuna er viðurkennt án fyrirvara og þar sem efnahagslegt réttlæti er í algjöru fyrirrúmi. Þegar það hefur tekist er kannski tímabært að tala um þjóðarsátt um stöðugleika.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: