Hrikaleg staða er að verða vegna stöðunnar í kjaradeilu ríkisins og ljósmæðra. Æ fleiri ljósmæður gefast upp á stöðunni og segja störfum sínum lausum. Ábyrgðin er einkum Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, og svo auðvitað forsætisráðherrans, Katrínar Jakobsdóttur.
Afstaða Bjarna kemur engum á óvart. Áhugaleysi Svandísar, eða aum staða hennar gagnvart Bjarna, er hins vegar nokkuð sem særir marga. Annað hvort er ríkisstjórnin ráðþrota eða áhugalaus. Hvorutveggja er vont.
Fjallað er um stöðu deilunnar á mbl.is í dag. Þar segir: „Það hrúgast inn uppsagnir. Það er gríðarleg óánægja náttúrulega,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, í samtali við mbl.is. Telur Katrín að níu ljósmæður hafi sagt upp störfum á fæðingarvakt Landspítalans í síðustu viku en tekur fram að hún sé þó ekki með nýjustu tölur. „Héðan í frá verður blóðtaka hver einustu mánaðamót.“
Nítján uppsagnir munu taka gildi um mánaðamótin og fleiri hafa í hyggju að segja upp störfum á þeirri á sónardeild Landspítalans, að því er fram kom í fréttum Bylgjunnar í dag.
Katrín Sif segir verkfallsaðgerðir í fullum undirbúningi og stefnt er á að yfirvinnuverkfall hefjist um miðjan júlímánuð. Ljósmæður eiga fund með forsætisráðherra á þriðjudag og næsti fundur hjá ríkissáttasemjara fer fram á fimmtudag.
Ljóst er að það þarf mikið að breytast til að viðhorfsbreyting verði innan ríkisstjórnar Íslands. Vilji er sagður til að bæta stöðu kvennastétta. Ljósmæður er mesta kvennastétt landsins og staðan sýnir að engin alvara er að baki fullyrðingum um vilja til gera betur hvað varðar hag kvennastétta. Það eru líka vonbrigði.
Miðjan
Ritstjóri Miðjunnar.