Níðingsverk Reykjavíkurborgar
Vilhjálmur Birgisson er ósáttur við framgöngu Reykjavíkurborgar: „Það má því segja að þetta 45.000 króna byggingarréttagjald sem Reykjavíkurborg eitt rukkar geri það að verkum að stofnframlag Reykjavíkurborgar verður ekkert.“
Það er með algjörum ólíkindum að Reykjavíkurborg skuli níðast á þessu húsnæðisleiguverkefni sem verkalýðshreyfingin er að reyna að koma á laggirnar í gegnum Bjarg íbúðarfélag. Rétt er geta þess að Bjarg er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af verkalýðshreyfingunni og er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.
En afhverju segi ég að borgarstjórn Reykjavíkur sé að níðast á þessu mikilvæga verkefni sem lýtur að því að tryggja tekjulágu fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu?
Jú, það er vegna þess að Reykjavíkurborg eitt sveitafélaga á Íslandi rukkar Bjarg íbúðarfélag um 45.000 krónur eða svokallað byggingaréttagjald fyrir hvern fermetra sem byggður er.
Í öðrum sveitarfélögum þar sem Bjarg er að byggja er þetta gjald ekki lagt á.
Hækkar leiguna um 30 þúsund á mánuði
Þetta þýðir að af 100 fermetra íbúð sem Bjarg byggir handa tekjulágum fjölskyldum tekur Reykjavíkurborg 4,5 milljónir bara vegna þessa svokallaða byggingarréttagjalds.
Þetta þýðir að ef Bjarg íbúðarfélag byggir 1000 íbúðir í Reykjavík eins til stendur að gera þá mun Bjarg íbúðarfélag þurfa að greiða Reykjavíkurborg tæpa 4 milljarða í þetta svokallaða byggingaréttargjald. Já takið eftir 4 milljarða og þetta þýðir ekki nema eitt að leiguverð á þessum íbúðum í Reykjavík mun þurfa að verða 25 til 30 þúsund hærra á mánuði vegna þessa.
Tekjulágir borga gjaldið
Þetta er með svo miklum ólíkindum að þegar verkalýðshreyfingin er að reyna að koma hér á viðráðanlegu leiguverði fyrir þá sem eru með lægstu tekjurnar á íslenskum vinnumarkaði þá kemur Reykjavíkurborg eitt sveitafélaga og krefst þess að fá 45 þúsund krónur fyrir hvern fermetra.
Þetta verkefni gengur út á það að byggja hagkvæmt og halda kostnaði niðri en þá kemur borgarstjórn og níðist á verkefninu eins og enginn sé morgundagurinn.
Það er rétt að geta þess að samkvæmt lögum nr. 52/2016 um almennar íbúðir er meginreglan sú að stofnframlag ríkisins skal nema 18% af stofnvirði almennrar íbúðar og stofnframlag sveitarfélags skal nema 12% af stofnvirði almennrar íbúðar.
Það má því segja að þetta 45.000 króna byggingarréttagjald sem Reykjavíkurborg eitt rukkar geri það að verkum að stofnframlag Reykjavíkurborgar verður ekkert. Svo kemur borgarstjóri og lætur taka af sér myndir þegar verið er að taka skóflustungur af íbúðum sem Bjarg er að fara að reisa og það í ljósi þess að þeir taka allt stofngjaldið með því að rukka einir og sér þetta byggingargjald sem mun gera það að verkum að Bjarg þarf að greiða tæpa 4 milljarða ef þessar 1000 íbúðir verða að veruleika og á endanum verða það tekjulága fólkið sem leigir þessar íbúðir sem þurfa að greiða þetta.
Hvernig getur borgarstjóri sem kennir sig við flokk sem byggir á félagshyggju og réttlæti horft upp á það að Reykjavíkurborg eitt sveitafélaga ætli að rukka Bjarg íbúðarfélag um þessa upphæð sem mun hækka leiguverð hjá tekjulágu fólki um 25 til 30 þúsund á mánuði?
Vilhjálmur Birgisson skrifaði greinina á Facebook. Fyrirsögn og millifyrirsagnir eru Miðjunnar.