- Advertisement -

Ríkisstjórn sérhagsmuna

 Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, var fyrst á mælendaskrá í Eldhúsdagsumræðunum á Alþingi í kvöld.

Í ræðu sinni sagði Oddný, meðal annars:

„Glöggt dæmi um sérhagsmunagæslu er sá stuðningur og sú skjaldborg sem slegin var um embættisfærslur dómsmálaráðherra við geðþóttaákvörðun um skipan dómara í Landsrétt sem hún hafði þó verið dæmd fyrir af Hæstarétti. Síðan eru áformin um lækkun þeirra gjalda sem útgerðin greiðir fyrir heimildina til að nýta auðlindir þjóðarinnar.

Forsætisráðherra sagði fyrir kosningar að stjórnmálamenn þyrftu að beita sér stöðugt fyrir réttlætinu og gagnrýndi þáverandi ríkisstjórn harkalega fyrir að láta öryrkja og aldraða bíða eftir mannsæmandi kjörum og fyrir dekur við auðmenn.

Eftir kosningar segir hún hins vegar að umræða um jöfnuð og traust sé áhugaverð og bregst hratt og örugglega við kalli útgerðarmanna um lægri veiðigjöld á meðan aðrir þurfa að bíða. Þetta er sláandi því að sjávarútvegsfyrirtæki landsins hafa hagnast um 300 milljarða kr. á síðustu átta árum. Fyrirtækin hafa greitt eigendum sínum tugi milljarða í arð á sama tíma og veiðigjöld hafa lækkað mikið. Ríkisstjórnin ætlar að rétta útgerðinni tæpa 3 milljarða og stórútgerðinni bróðurpartinn af því fé, stórútgerðinni sem sannanlega líður engan skort. Það gera hins vegar öryrkjar og aldraðir sem þurfa að reiða sig á greiðslur Tryggingastofnunar.

Ríkisstjórnin er ekki eins snögg að hlaupa undir bagga með þeim sem minnst hafa handa á milli og býður upp á áframhaldandi hokur og skammarleg kjör á meðan ójöfnuður er í hröðum vexti. Ójöfnuður hvort sem litið er til tekna eða eigna er að aukast hér á landi. Það er óheillaþróun sem ýtir undir ósætti í samfélaginu. Ríkustu 10% þjóðarinnar tóku til sín nær helming þeirrar hreinu eignar sem var til á árinu 2016 svo dæmi sé tekið, og þeirra allra ríkustu stærsta hlutann.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: