Þegar frambjóðendur Viðreisnar í Reykjavík sögðu flokkinn vilja helst lækka álögur á atvinnuhúsnæði og hækka þess í stað gjöld á almenning virtist fáum brugðið. En hvers vegna brá fólki ekki?
Það er vegna tengsla flokksins við atvinnuífið. Oddvitinn í Reykjavík talar mest um reynslu sína af atvinnulífinu og sá sem er í öðru sæti talar nær eingöngu um meira frelsi í Reykjavík. Hann nefnir aldrei til hvers hann þarf meira frelsi. Grunurinn er helst sá að hann vilji meira frelsi til að halda láglaunafólki þar sem það er og auka þannig mismun þegnanna.
Viðreisn er hægra megin við Sjálfstæðisflokksins og herðir nú á stefnu sinni.
Það var Gunnar Smári Egilsson sem fyrstur nefndi flokkinn pólitískan arm Samtaka atvinnulífsins. Það virðist vera réttnefni.
Formaður sem og varaformaður Viðreisnar komu beina leið úr Borgartúni 35, þar sem Samtök atvinnulífsins eru, ásamt fjölda annarra lobbýista á sex hæðum. Magnað.
Ekki nóg með það. Á einni hæðinni starfaði Guðjón Rúnarsson, sem var framkvæmdastjóri samtaka fjármálafyrirtækja, en bankar og fleiri fyrirtæki fá að hafa þar starfandi sameiginlega skrifstofu þar sem tilgangurinn er óljós. Nú situr þar fyrrverandi bankamálaráðherra og varaformaður Samfylkingarinnar, Katrín Júlíusdóttir.
Jæja, eftir að Guðjón Rúnarsson varð að rýma kontórinn til að hleypa Katrínu að, fann þáverandi formaður Viðreisnar og fjármálaráðherra þess tíma, þá snilldarráð að ríkið kæmi til móts við Guðjón við starfslokin. Hann var skipaður formaður einnar nefndar, sem kannski varð til bara þess vegna og hafði jafnvel engann tilgang annan og breytir sjálfsagt litlu eða engu. Guðjón þáði meira en ellefu milljónir fyrir. Úr ríkissjóði.
Rætur Viðreisnar eru í Borgartúni 35.