- Advertisement -

Þingskosningar, fyrir eða eftir áramót?

Mesta óvissan í íslenskum stjórnmálum er trúlega hvort kosið verði fyrir eða eftir næstu áramót. Það kannski skiptir ekki mestu, en margt bendir til að kosið verði fyrr en seinna. Alvarlegur ágreiningur og skoðanamunur hefur opinberast milli tveggja lykilráðherra, fólks sem munar um, hvar sem er.

Afstaða Bjarna Benediktssonar í garð ljósmæðra er eitt. Orðfæri hans er annað og gerir stöðuna sennilega verri en ella. Svandís Svavarsdóttir hefur sagt svigrúm til að semja við ljósmæður. Bjarni sýnir hins vegar hinn „harða stálhnefa“. Engin mýkt á þeim bæ. Sjálfur nýbúinn að fá margfalda þá hækkun sem þær vilja fá.

Vinstri græn er sár eftir þá fáu mánuði sem þau hafa verið í ríkisstjórn með Bjarna og félögum hans. Víst er að nú svíður þau í sárin. Þau geta ekki annað en efast um ágæti stjórnarsamstarfsins, annað er ómögulegt. Þau hafa koklgeypt ansi margt. Afstaða Bjarna og tuddaskapur gagnvart ljósmæðrum er trúlega of stór biti. Svo stór að hann getur ekki annað en staðið fastur í koki Vinstri grænna.

Framundan eru átakatímar. Ríkisvaldið fær nú nýtt og öðruvísi fólk að borðinu. Nýir leiðtogar í verkalýðshreyfingunni eru öðruvísi en forverarnir. Þau óttast ekki hinn „harða stálhnefa“. Miðað við hvernig Bjarni talar, og þá hugsar, sýnir að það væri glapræði að láta hann stjórna þeim viðbrögðum sem verða viðhöfð þegar harkan eykst, sem hún gerir.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Vinstri græn hljóta að hugsa með sér hvort staðan í deilunni við ljósmæður sé ekki fullkominn stökkpallur, til að stökkva frá borði. Játa mistökin og snúa heim á ný. Vinstri græn hafa skaðast mikið á samstarfinu við Sjálfstæðisflokksins. Innan þeirra raða eru eflaust raddir sem segja best að hætta fyrr en ella.

Því er spurningin þessi; verður kosið til þings, fyrir eða eftir áramót?

 

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: