- Advertisement -

Sakar Ásmund Einar um lygi

„Ég verð því að spyrja, fyrst það er svona auðvelt að ljúga um svona tilgangslaust atriði: Hvar liggur lína heiðarleikans í öðrum málum hjá ráðherra?“

Björn Leví Gunnarsson á Alþingi nú fyrir skömmu:

„Þann 9. apríl sl. spurði háttvirtur þingmaður Guðmundur Ingi Kristinsson hæstvirtan félags- og jafnréttismálaráðherra, í óundirbúinni fyrirspurn, um töku hálfs lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins. Ráðherra svaraði þeirri fyrirspurn með orðunum, með leyfi forseta:

„Ég vil segja hér að á leiðinni er mál, ef það er ekki komið til þingsins er það á leiðinni, til að gera breytingar á þessu og koma í veg fyrir þá glufu sem þarna myndast og hv. þingmaður kom inn á.“

Mér fannst þetta áhugaverð fullyrðing og satt best að segja, miðað við framgang ríkisstjórnarmála á þeim tíma, trúði ég ekki að ráðherra væri að segja satt. Þess vegna sendi ég fyrirspurn um hvenær vinna við þetta mál hefði hafist í ráðuneytinu. Í gær barst mér svar, með leyfi forseta:

„Ráðuneytið átti fund með fulltrúum í Landssamtökum eldri borgara, samtökum aðila á vinnumarkaði og Landssamtökum lífeyrissjóða hinn 9. apríl sl. þar sem málið var ítarlega rætt og miðast upphaf málsins við þá dagsetningu.“

Fundurinn með hagsmunaaðilum var kl. 14 þann 9. apríl. Fyrirspurn háttvirts þingmanns Guðmundar Inga Kristinssonar var einum og hálfum klukkutíma seinna. Á þeim eina og hálfa klukkutíma var málið komið í „að vera á leiðinni“, ef ekki „komið til þingsins“ samkvæmt orðum ráðherra.

Þetta er augljóslega ekki satt og þetta eru líka svo tilgangslaus ósannindi. Ráðherra stærir sig af því að vera búinn að leysa vandamálið sem hv. þingmaður bendir á þrátt fyrir að vita upp á hár að upplýsingarnar sem hann færir þinginu úr þessum ræðustól eru ekki réttar.

Það hefði verið svo lítið mál að segja að fyrr um daginn hefði hafist vinna með hagsmunaaðilum að breytingum á nákvæmlega þessu máli. Ég verð því að spyrja, fyrst það er svona auðvelt að ljúga um svona tilgangslaust atriði: Hvar liggur lína heiðarleikans í öðrum málum hjá ráðherra?“

 

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: