- Advertisement -

Því vilja ráðherrar ekkert gera fyrir ljósmæður?

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir: Hér eru því bæði fjárhagslegir og samfélagslegir kostir sem benda til þess að það borgi sig margfalt að ganga frá samningnum við ljósmæður um heimaþjónustu.

„Ég er komin hingað upp til að ræða vonbrigði, vonbrigði yfir viðbrögðum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem nú hefur einstakt tækifæri til að sýna kjark og þor, tækifæri til að standa við orð sín í stjórnarsáttmálanum og leiðrétta kjör einnar elstu kvennastéttarinnar, leiðrétta kjör ljósmæðra sem ekki eru að biðja um mikið. Þær vilja aðeins fá laun sem samsvara menntun þeirra og störfum frekar en að lækka í launum þegar þær bæta við sig námi,“ sagði Albertína Friðbjörg Elíasdóttir Samfylkingu á Alþingi fyrr í dag.

Albertína minnti á ástandið sem nú er uppi: „Nú er staðan sú að 95 ljósmæður sem sinnt hafa heimaþjónustu við konur og nýbura hafa lagt niður störf — skiljanlega, enda samningslausar og hafa lítil sem engin svör fengið, að því er virðist. Ráðherra vísaði til þess í gær að heilbrigðisstofnunum hefði verið falið að sinna þessari þjónustu en þess má geta að ljósmæður í heimaþjónustu fá 4.394 kr. á tímann fyrir að sinna heilbrigðum konum og sinna þessari þjónustu í verktakastarfi. Innlögn móður á kvennadeild kostar í kringum 100 þús. kr. á sólarhring. Þess má geta að þessi laun fá hjúkrunarfræðingar fyrir að sinna heimaþjónustu jafnt á virkum dögum, um helgar og á helgidögum.“

Albertína hélt áfram: „Maður þarf ekki að vera neitt sérstaklega flinkur í reikningi til að átta sig á því að þessi leið er ekki sérlega hagkvæm fyrir ríkið, þ.e. að vísa sængurkonum í innlagnir, þegar hægt er að gera þetta á mun hagkvæmari hátt heima fyrir sem sömuleiðis er sérlega styrkjandi og fyrirbyggjandi þjónusta jafnvel þó að samningurinn við ljósmæður yrði hækkaður. Hér eru því bæði fjárhagslegir og samfélagslegir kostir sem benda til þess að það borgi sig margfalt að ganga frá samningnum við ljósmæður um heimaþjónustu. Segja má að það sama gildi um samninga við ljósmæður í heild.“

Að þessu öllu sögðu kom að spurningu: „Hvernig stendur á því að ráðherrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur vilja ekkert gera fyrir ljósmæður?“

 

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: