1. desember verði almennur frídagur
Dagur fullnaðarsigurs í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, segja flutningsmenn frumvarpsins.
Allir þingmenn Miðflokksins, sem og Ólafur Ísleifsson Flokki fólksins, hafa lagt fram frumvarp á Alþingi þess efnis að 1. desember, fullveldisdagurinn, verði hér eftir almennir frídagur.
„Þann 1. desember 2018 eru liðin 100 ár frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki með lögfestingu sambandslagasamnings við Danmörku. Af því tilefni eru fyrirhuguð margvísleg hátíðahöld á árinu 2018, m.a. á vegum Alþingis, enda vel við hæfi að svo mikilvægra tímamóta í lífi þjóðarinnar sé minnst með jákvæðum og afgerandi hætti. Á sama grundvelli er því lagt til með frumvarpi þessu að frá og með þessari hundruðustu ártíð fullveldisins verði 1. desember ár hvert lögbundinn frídagur,“ segir í greinagerð með frumvarpinu.
Í lögum um 40 stunda vinnuviku, er nú, auk helgidaga þjóðkirkjunnar, sérstaklega kveðið á um fjóra heila frídaga: sumardaginn fyrsta, fyrsta mánudag í ágúst (frídag verslunarmanna), 1. maí (baráttudag verkalýðsins) og þjóðhátíðardag Íslendinga 17. júní.
„Að mati flutningsmanna hefur enginn þessara daga haft í för með sér jafnmiklar grundvallarbreytingar á sögu og lífi íslensku þjóðarinnar og fullveldisdagurinn 1. desember 1918, dagurinn sem markaði fullnaðarsigur í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Með því er ekki gert lítið úr sögu eða mikilvægi þessara daga, sem að sönnu er ærið, en í ljósi þess að mælt er fyrir um að þessir fjórir dagar skuli vera almennir frídagar samkvæmt lögum um 40 stunda vinnuviku, og þeir þannig festir í sameiginlegt minni þjóðarinnar, telja flutningsmenn eðlilegt og rétt að fullveldisdagurinn 1. desember verði jafnframt gerður að frídegi á sama hátt og mikilvægi hans verði þannig minnst um alla framtíð,“ segir einnig í greinagerðinni.
Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Þorsteinn Sæmundsson.