- Advertisement -

XB5: Framsókn tipplar á tánum

Framsóknarflokkurinn er ófrjáls í skuldaklafa. Fullyrt er að á síðasta flokksþingi hafi þess verið gætt að ræða ekki málaflokka sem VG eða Sjálfstæðisflokkur fara með í ríkisstjórninni.

„Flokkurinn virðist bæði vera hugmyndafræðilega og peningalega gjaldþrota. Efnahagsreikningi er haldið frá okkur flokksmönnum, en við vitum að skuldastaðan er skelfileg,“ segir einn af viðmælendum Miðjunnar. Hér hefur ekki verið vitnað orðrétt í ónafngreinda heimildarmenn, fyrr en nú, þar sem þessar fullyrðingar hafa komið frá nokkuð mörgum viðmælendum.

Um þetta virðast allir sammála. Framsóknarflokkurinn, og jafnvel fleiri flokkar, hafa misst nokkuð af sjálfstæði sínu þar sem flokkurinn er háður lánadrottnum, lánadrottnum sem fáir virðast vita hverjir eru. Það er hættulegur leikur. Ekki síst fyrir stjórnmálaflokk.

Minni tekjur og mikill kostnaður

Samþykki Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, um kosningar í október 2016 situr í mörgum flokksfélögum. Hefði hann dregið kosningarnar fram yfir áramótin, sem hann átti að geta gert, hefði fjárhagsstaðan verið mun betri en hún er. Flokkurinn fór úr nítján þingmönnum í níu og við það lækkaði ríkisframlagið um sjötíu milljónir króna. Greiðslur hvers árs taka mið af þingmannafjölda um áramót.

Tvær síðustu kosningabaráttur hafa verið kostaðar með lánsfé. Örar kosningar koma illa við marga flokka, ekki síst Framsókn sem sér ekki út úr skuldavandanum og margt bendir til að flokkurinn missi hús sitt við Hverfisgötu í Reykjavík. Áhvílandi skuldir virðast flokknum ofviða.

Tipplað á tánum

Flokksmenn segja að þess hafi verið gætt fyrir síðasta flokksþing að þar yrðu einungis ályktanir um þá málaflokka sem Framsókn fer með í ríkisstjórninni. Ótti við að stugga við samferðaflokkunum hafi ráðið þar mestu. Einn sagðist aldrei hafa; „…upplifað annan eins aumingjaskap“.

Þá er og fullyrt að félagaskrá flokksins sé ekki með öllu marktæk. Þar séu nöfn fólks sem hafi einhvern tíma verið smalað til að kjósa eitt eða annað en kannist jafnvel ekki við að vera í flokknum. Andstaða er við tiltekt félagaskrárinnar þar sem einstaka kjördæmafélög, ekki síst í Reykjavík, eiga mikið undir óbreyttri félagaskrá þar sem með henni ræðst fjöldi fulltrúa á flokksþing.

Að lokum

Áður hafa birst hér fjórar fréttaskýringar um stöðuna innan Framsóknarflokksins. Fyrst var fjallað um gjána sem er milli Sigurðar Inga formanns og Lilju Alfreðsdóttur varaformanns. Þá var umfjöllun þar sem meðal annars var fjallað um skammsýni Sigurðar Inga. Í þriðja hluta var fjallað um stöðu Lilju Alfreðsdóttir, þá svokallaða „ræningja“ og nú um erfiða stöðu flokksins, málefnalega og fjárhagslega.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: