XB 1: Sigurður Ingi vantreystir Lilju
Átök eru innan Framsóknarflokksins. Sigurður Ingi er ekki sá mannasættir sem vonast var til. Efast er um að Lilja Dögg verði áfram í stjórnnálunum. Andinn í flokknum er sagður valda því og vonbrigði með áhugaleysi Miðflokksins á samruna við Framsókn.
Heimildir innan Framsóknarflokksins segja vantraust Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, í garð Lilju Daggar Alfreðsdóttur varaformanns, vera mjög sýnilegt.
Sigurður Ingi er sagður halda upplýsingum frá Lilju Dögg og gæta þess sem mest hann má og getur að halda henni utan við það sem honum og öðrum formönnum ríkisstjórnarflokkanna, þ.e. Katríknu Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssyni, fer á milli. Svo var ekki, en er sagt áberandi og þvingandi nú.
Ágreiningur um Miðflokkinn
En hver er ástæðan? Jú, hann er sagður vantreysti henni, segir hana bera kápuna á báðum öxlum. Vilji Lilju Daggar til að sameina Framsóknarflokk og Miðflokkinn er víst flestum kunnur. Sá áhugi er mun meiri hjá henni en Sigurði Inga. Hann er sagður að vilja ekkert af Miðflokki vita og geti ekki hugsað sér að eiga í samstarfi við Sigmund Davíð Gunnlaugsson og hans samstarfsfólk. Þessar deildu meiningar formanns og varaformanns Framsóknar skaða samstarfið innan flokksins.
Lilja Dögg er sögð hafa orðið fyrir vonbrigðum með afstöðu Sigmundar Davíðs og annarra í Miðflokknum. Fullyrt er að þar á bæ sé lítill og jafnvel enginn áhugi á samruna við Framsóknarflokkinn.
Aftur í Seðlabankann?
Andinn í Framsóknarflokknum er sagður þungur, þyngri en áður. Þar kemur ýmislegt til. Samskipti þeirra Sigurðar Inga og Lilju Daggar, fjárhagsstaða flokksins, opið sár vegna uppgjörs Sigurðar Inga og Sigmundar Davíðs og tilurð Miðflokksins, svo eitthvað sé nefnt og verður fjallað nánar um hér á vefnum í dag og kannski næstu daga.
Fullyrt er að Lilja Dögg eigi afturkvæmt í Seðlabankann og hugur hennar leiti þangað. Ekki síst vegna átakanna innan flokksins og ástandsins þar. Hópur manna sem kallar sig „ræningjanna“ er sífellt fyrirferðameiri og þeir eru sagðir fjarri því að heilla Lilju Dögg. Hún hefði á síðasta flokksþingi getað unnið Sigurð Inga í formannskjöri. En Lilja Dögg gefur ekki kost á sér í slík átök, sögð forðast mannavíg.
Því óttast það fólk sem hefur horft til hennar sem komandi leiðtoga Framsóknarflokksins að hún hætti í stjórnmálum og snúi aftur í Seðlabankann, þar sem hún hefur ekki lokað öllum dyrum og á enn afturkvæmt.
Sigmundur Davíð og hans fólk í Framsókn
Staða Framsóknarflokksins er ekki góð og margt þarf að bæta og laga. Flestir sem rætt hefur verið treysta Sigurði Inga ekki nægilega vel til að leysa úr þeim vanda sem við er að glíma. Afstaða hans gagnvart Lilju Dögg er sögð vera talandi dæmi um hvernig hann bregst við. Hann leitar ekki sátta heldur verður einþykkur og harðráður.
Sigurður Ingi er sagður hafa orðið undir á miðstjórnarfundi síðsumars 2017. Þar var hann „neyddur“ til að boða til flokksþings sem var haldið í janúar í ár. Meðal fundarmanna voru margir sem töldu Sigurð Inga var að gefast upp, að hann myndi hætta sem formaður á flokksþinginu. Fullyrt er að á miðstjórnarfundinum hafi um helmingur fundarmanna, og jafnvel fleiri, verið stuðningsmenn Sigmundar Davíðs þrátt fyrir að hafa ekki fylgt honum yfir í Miðflokkinn.
Sigurður Ingi var skammaður á miðstjórnarfundinum, að honum var sótt og segjast sumir, sem ekki eru sérstakir stuðningsmenn hans, hafa vorkennt honum. Þá voru margir fundarmenn vissir um að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs.
Skyndilega breyttist allt. Ríkistjórn Bjarna Benediktssonar sprakk og boðað var til kosninga. Meira síðar í dag.