Eftir að hafa varið fjórum vikum á Spáni er ekki laust við að verðmunurinn milli landanna sé meiðandi.
Hér er dæmi um verðmun á nánast sömu vöru. Á Íslandi voru keyptar veitingar á Snaps 27. janúar. Á Spáni á fínum veitingastað sem heitir Simone. Sá er alls ekki síðri en Snaps.
Hér verða borin saman verð á drykkjum. Á meðfylgjandi töflu er hægt að sjá verðmuninn. Einsog sjá má þá kostar glas af hvítvíni, eitt af sódavatni og kaffibolli meira en fjórfalt meira í Reykjavík en á Alicante.
Samtals 2.430 krónur í Reykjavík, en 579 krónur á Alicante réttum mánuði síðar.
Þess ber að geta að hvítvínið var borið fram í lítilli könnu á Snaps en á Simone í einu stóru hvítvínsglasi.
Réttirnir eru ekki sambærilegir. Á Snaps voru keyptar tvær andabringur, sem kosta 4.900 krónur hvor en á Simone ein pizza, þeirra stolt, pizza Simone, sem kostar 1.384 krónur. Þar sem pizzan er stór og matarmikil keyptum við eina og skiptum á milli okkar. Samtals kostaði máltíðin, þ.e. pizza, capuccino, americano, sódavatn og hvítvín 2.151 krónu.
Á Snaps kostuðu tvær andabringur, hvítvínsglas, sódavatn og americano 12.230 krónur.
Engin ástæða er til að ætla að Snaps sé verri hvað þetta varðar en önnur veitingahús á Íslandi. En svona er þetta. Fólki bregður.
-sme