- Advertisement -

Forsvarsmenn sjómanna hunsa fundi

Kjaramál. Brim hf., segir á heimasíðu fyrirtækisins að forsvarsmenn þess hafi ýmist talað fyrir daufum eyrum stjórnmálamanna og að forsvarsmenn sjómanna hafi varla fengist á starfsmannafundi til að ræða, sem að mati Brims hf., er alvarleg þróun vegna hversu kostnaðarsamt er að gera út frystitogara og laun sjómanna vegi þar þungt.

Yfirlýsingin á heimasíðu Brims hefst svona: „Eitt er ljóst, að til fjölda ára hafa hagsmunafélög útgerðarinnar og hagsmunafélög sjómanna  ekki getað rætt né samið um  endurbættan kjarasamning sjómanna á frystitogurum.  Núverandi kjarasamningar gefa hvorki  tækifæri á að þróa fullvinnslu um borð né að þessi skip geti nýtt aukaafurðir eins og landvinnslan er að gera í dag með arðbærum hætti.“

Stór og dýr skip

Formælendur Brims segja að nýtt veiðigjald vegi mjög þungt á frystitogarana. „Þorskígildisstuðlar sem eru nýttir sem stofn til að leggja veiðigjald á útgerðina eru rangir og eru æði misjafnir eftir fisktegundum. Þannig eru tegundir sem eru frystar um borð í frystitogara með mjög háan ígildisstuðul þrátt fyrir að hagnaður af veiðum þeirra  sé í mörgum tilfellum óverulegur.“

Þá að laununum. „Launahlutfall er mjög hátt á frystitogurunum og núna í dag er launakostnaður stór gjaldstofn í rekstri fyrirtækja.  Þannig er t.d. öll gjöld til hagsmunafélaga atvinnurekanda og launþega reiknaðir út frá launagrunni og svo líka tryggingargjald. Frystitogarar greiða há laun og þar af leiðandi borga útgerðir frystitogara og sjómenn á frystitogurum mjög há gjöld til þessara samtaka. Frystitogari borgar miklu hærra gjald per kíló þorsks í þessi samtök  en rekstrareiningar sem landa afla ferskum til landvinnslu.“

Þá segir að Brim hf. hafi reynt mikið, á síðustu tveimur árum, að ná fram leiðréttingu eða fá málefnalega umræðu um það sem skiptir frystitogaraútgerðina miklu máli. „Haldnir hafa verið bæði opinberir fundir og lokaðir fundir með ráðamönnum þjóðarinnar en án árangurs. Brim hf. hefur birt heilsíðu auglýsingar í dagblöðum um suma þessara punkta. Formönnum og forráðamönnum stéttarfélaga sjómanna hefur verið boðið að koma á starfsmannafundi félagsins með sjómönnum þar sem farið var yfir þessi mál. Lítill áhugi hefur verið hjá þessum aðilum að  mæta á þessa fundi né ræða þessi alvarlegu mál.“

Harma viðhorfin

Samkvæmt því sem segir á heimasíðu Brims er andar köldu til útgerða í landinu. „Brim hf. harmar þetta viðhorf sem er til staðar í íslensku þjóðfélagi í dag til útgerðar frystitogara. Brim hf. telur að þetta viðhorf og aðgerðir stjórnvalda muni skaða þjóðarbúskapinn á næstu árum og áratugum þar sem flest af okkar stærstu og öflugustu frystiskipum munu verða seld úr landi. Skip og sjómenn þessara skipa hafa skilað miklum tekjum til íslenska þjóðarbúskapsins á liðnum árum og áratugum. Þessi skip hafa stundað veiðar á fjarlægum miðum og þessar veiðar verða ekki stundaðar nema á góðum og tæknivæddum skipum sem því miður er verið að leggja af í íslenskum sjávarútvegi.“

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: