Alþingi Nokkrir þingmenn, undir forstystu Helga Hrafns Gunnarssonar Píratar hafa lagt fram lagafrumvarp þar sem þeir vilja að bann við heimabruggun verði ógilt og hver geti þá bruggað sem honum sýnist.
„Áfengisneysla er rótgróinn hluti af íslenskri menningu. Framleiðsla þess, sala og neysla hefur lengi verið háð miklum takmörkunum vegna þeirra skaðlegu áhrifa sem áfengisneysla veldur bæði þeim sem þess neyta og samfélaginu í heild,“ segir meðal annars í greinagerð með frumvarpinu.
Þar segir og: „Síðustu ár hafa rutt sér til rúms fjölmargar nýjar tegundir af íslenskum bjór. Forvitni ferðamanna og áhugi þeirra á íslenskum bjór hefur aukist samhliða þeirri þróun. Óumdeilt þykir meðal þeirra sem til þekkja að heimabruggun eigi ríkan þátt í því að svo margar nýjar gerðir bjórs hafi komið fram á undanförnum árum og öðlast vinsældir. Það skýtur skökku við að vaxtarbroddur íslenskrar bjórmenningar og sú jákvæða ímynd sem tekist hefur að afla íslenskum bjór hvað varðar gæði, grundvallist í reynd á afbroti sem þung refsing liggur við.“
Athyglisvert er að þingmönnunum þykir mikið til áfengisdrykkju og bruggunar koma, þar sem þeir tala einatt um menningu í því samhengi.
Hér er hægt að lesa frumvarpið.