- Advertisement -

Völvuspá 6. hluti: Óveður hjá Ásmundi

Völvan Völva Miðjunnar sér Ásmund Einar Daðason félagsmálaráðherra eiga í vanda á árinu 2018. Hann þarf að hafa talsvert fyrir að verja setu sína á ráðherrastóli og margt bendir til að hann verði að játa sig sigraðan og segi því af sér ráðherradómi.

Völvan er viss um að ástæða þess er ekki það mál sem hefur verið í umræðunni og lýtur að málefnum fyrrum starfsmanns á búgarði fjölskyldu ráðherrans. Annað mál og ekki skárra mun koma í dagsljósið. Ásmundur Einar hefur, samkvæmt þessu, gengið of langt án þess að brjóta lög.

Völvan telur að Þórunn Egilsdóttir þingflokksformaður Framsóknar taki við ráðherradómi og Silja Dögg Gunnarsdóttir verði þingflokksformaður.

Völvuspá 1. hluti: Biskupskjör 2018

Þú gætir haft áhuga á þessum

Völvan Völva Miðjunnar gerir ráð fyrir að biskupskjör verði seinni hluta næsta árs. Völvan segir Agnesi Sigurðardóttur segja af sér, ekki síst vegna óánægja meðal presta kirkjunnar.

Annað mun hjálpa til, svo sem hversu fækkar í Þjóðkirkjunni.

Völvuspá 2. hluti: Átök í ríkisstjórn

Völvan Völva Miðjunnar gerir ráð fyrir að talsverð átök verði innan VG og Sjálfstæððisflokks og eins milli þessara flokka. Ekkert bendir til annars en að ríkisstjórnin standi storminnn af sér.

Völvan segir erfitt að sjá hvað það verður sem veldur tortryggni milli flokkanna, en segir það verða eitthvað sem er ekki komið í umræðuna. En komi með talsverðum hvelli.

Innan VG mun margt flokksfólk verða fyrir vonbrigðum með afstöðu þingflokks og ráðherra í nokkrum málum. Katrín Jakobsdóttir nær að róa öldurnar.

Bjarni Benediktsson verður hins vegar í meiri ágjöf. Einstaka þingmenn mun brýna raustina sem mun valda Bjarna vanda, þrátt fyrir að hann verði endurkjörinn formaður á næsta landsfundi.

Völvuspá 3. hluti: Davíð hættir á Mogganum

Völvan Völva Miðjunnar er ákveðin um að Davíð Oddsson láti af ritstjórn Morgunblaðsins snemma árs 2018. Davíð verður sjötugur 17. janúar næstkomandi.

Völvunni sýnist sem Haraldur Johannessen, sem er hvorutveggja meðritstjóri Davíðs og framkvæmdastjóri útgáfunnar, hætti sem ritstjóri og við taki Stefán Einar Stefánsson, sem er einn yfirmanna á ritstjórn Morgunblaðsins og með honum verði Illugi Gunnarsson ritstjóri.

Völvan viðurkenni óvissu með Illuga, en sér fyrrverandi þingmann og ráðherra Sjálfstæðisflokksins í stóli ritstjóra. Hún hallast helst að því að Illugi sé sá maður.

Völvuspá 4. hluti: Dagur situr áfram

Völvan Völva Miðjunnar sér miklar breytingar í borgarstjórn. Borgarfulltrúar verði mun fleiri en nú er og það mun gefa, að mati völvunnar, nýjum framboðum möguleika til að komast að. Eitt er völvan sannfærð um; Dagur B. Eggertsson verður áfram borgarstjóri.

Völvan er viss um að Sjálfstæðisflokkurinn verður stærstur flokka en það mun ekki duga til að fella Dag. Hann verður fyrstur, myndar óvæntan meirihluta fáum dögum eftir kosningar.

Völvan sér ekki hvað verður um VG, hvort flokkurinn verði áfram í meirihluta eða ekki. Óvissan er mikil, segir hún. Fylgi VG er í óvissu og hvernig flokknum mun ganga skýrist frekar af störfum ríkisstjórnarinnar en borgarstjórnar.

Völvan er sannfærð um spennandi kosningar í vor með óvæntum úrslitum.

Völvuspá 5. hluti: Verkföll og átök

Völvan Völva Miðjunnar er viss um mikil átök í kjarabaráttunni á árinu 2018. Það er þó ekki allt. Völvan sér einnig mikið ósætti í röðum launafólks. Völvan er viss um að ekki verði samflot launafólks sem svo oft áður, heldur verði farið fram á mörgum vígstöðum með ólíkar kröfur.

Aðkoma ríkisstjórnarinnar verður flókin. Meðal launafólks er ósætti með sumt sem hefur þegar komið fram á Alþingi, svo sem höfnun ríkisstjórnarinnar á að bæta barnabætur og húsnæðisbætur.

Niðurstaða kjararáðs mun flækjast mjög fyrir og verða ásteytingarsteinninn í baráttunni, einkum meðal opinberra starfsmanna. Þrýst verður á ríkisstjórnina til að afnema með lögum síðustu ákvarðanir kjararáðs.

Átökin verða mikil og verkföll eru framundan, það er völvan sannfærð um. Völvan er einnig sannfærð að árið 2018 verður ár átaka á vinnumarkaði. Hún segir að nú stefni í meiri gjá milli talsmanna launafólks og launagreiðenda. Nýjar persónur þar eigi erfiðara með samskipti við launafólk en lengi hefur þekkst.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: