Neytendur Þingmenn Pírata hafa lagt fram þingsályktunartillögu um rafræn fasteignaviðskipti og ástandsskýrslur fasteigna.
„Með tillögu þessari er lagt til að ráðherra verði falið að undirbúa nokkrar breytingar til að bæta stöðu neytenda. Lögð er áhersla á að ástand húsnæðis verði kunnugt öllum aðilum er koma að fasteignaviðskiptum, þ.e. kaupendum, seljendum og milliliðum. Með því mætti draga verulega úr líkum á því, eftir að viðskipti með íbúðarhúsnæði hafa farið fram, að upp kæmu leyndir gallar með tilheyrandi kostnaði fyrir kaupendur, seljendur og samfélagið. Þá er lagt til að settar verði skýrar reglur um ábyrgð vegna galla sem ekki koma fram í ástandsskýrslum,“ segir meðal annars í greinagerðinni með tillögunni.
Þar segir einnig: „Eitt helsta markmið tillögu þessarar er að einfalda samskipti á milli seljanda og kaupanda húsnæðis sem og leigusala og leigjanda hvað varðar gerð samninga og frágang annarra nauðsynlegra löggerninga. Slík einföldun er til þess fallin að minnka kostnað við kaup og sölu, auka skilvirkni í viðskiptum, minnka flækjustig og auka öryggi neytenda. Með rafrænum lausnum á borð við island.is væri stigið skref áfram í þá átt sem viðskiptagrein þessi er að þróast í. Frumvarp um rafrænar þinglýsingar hefur verið unnið hjá innanríkisráðuneytinu, nú dómsmálaráðuneytinu, og er þess að vænta að á allra næstu árum muni þinglýsingar og undirritun og gerð löggerninga í auknum mæli fara fram með rafrænum hætti. Slíka þróun verður að hagnýta til þess að auka skilvirkni og öryggi og bæta þjónustu við neytendur.“