Grein „Mestu vitleysingar Íslands voru af Suðurnesjum með kvarnir þorsks í stað heila, Snæfellingar komu þar á eftir. Börn frá þessum bjánastöðum fundu glöggt flokkun einkenna mannvits og fábjánaháttar ef þau voru send í sveit til að vinna fyrir sér og „mannast“ hjá bændum. Sá andlegi munaður að njóta þess „að mannast í sveit“ gat verið fróðlegur, barnið styrktist við það að kynnast rammíslensku eðli, eins og það var kallað. Krakkar sem komu heim úr sveit voru reynslunni ríkari. Þau höfðu lært að vorkenna ekki sjálfum sér heldur uxu þau andlega á þann hátt sem mótlætið getur kennt sálinni. Fyrir bragðið urðu þau síðar á ævinni ólík vælukjóakynslóðinni núna sem er afturendinn á framhlið íslenskrar sveitamenningar sem andar jafn fúlum vindi að framan og aftan.“
Þetta er kafli úr nýrri grein eftir Guðberg Bergsson rithöfund. Greinin birtist á vef Guðbergsstofu og lesa má hana hér. Frábær grein og beitt.