Umræðan Guðmundur Gunnarsson skrifar þarfa grein á Facebook. Hún er birt hér og tekið undir það sem Guðmundur skrifar:
„Lögreglumenn, stjórnmálamenn ásamt talsmönnum fjármálamanna og útrásarvíkinga keppast nú við að lýsa sökum á hendur öllum sem komu að Búsáhaldabyltingunni. Fólki sem tapaði aleigunni og vinnunni og mætti á Austurvöll til þess að mótmæla ömurlegri stjórnvaldi sem aflétti öllu eftirliti og stóð þannig að einu mesta arðráni og siðleysi Íslandssögunar. Nú er þetta fólk kallað hyski og útmálað sem illþýði í spjallþáttunum og dagblöðum auðjöfranna .
Tækifærið er gripið þar sem 10 – 20 karlpungar beittu sér við heimili stjórnmálamanna og þeir hinir sömu sem grýttu lögregluna. Athafnir þessa fámenna hóps er yfirfærð með góðri aðstoð spjallþáttastjórnenda yfir á kyrrlátt fólk sem mætti þúsundum saman stundum tugþúsundum saman á Austurvöll í kyrrláta mótmælastöðu. Þessi umræða er hreint útsagt ógeðsleg.
Það liggur fyrir ítarleg skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hverjir það voru sem skópu hrunið og stuðluðu að mesta siðleysi sem varð til þess að fámennur hópur sópaði til sín milljörðum sem varð til þess að 20 þús. heimili urðu gjaldþrota. Laun verkafólks féll um helming og þúsundir misstu vinnu sína. Nær væri að reisa minnisvarða þess fólks sem stóð kyrrlátri mótmælastöðu á Austurvelli og krafðist réttætis og bætts siðferðis stjórnmálamanna.
Mótmælastaða sem varð þess að stjórnmálamenn komust ekki hjá því að sópa flórinn. Reisum mótmælendunum minnisvarða svo siðleysi stjórnmálamanna og útrásarvíkinga það gleymst aldrei.“