- Advertisement -

Ábyrg og málefnaleg gagnrýni

Guðmundur Þ. Ragnarsson.

Umræðan Ábyrg og málefnaleg gagnrýni er af hinu góða og þróar og þroskar alla umræðu og stefnumótun. Til að það gerist  þarf hún að vera málefnaleg og lausnamiðuð. Að mínu mati fá mörg stór málefni mikinn tíma í fjölmiðlum og spjallþáttum án þess að kallað sé eftir því hjá þeim sem eru í viðtölum hvernig þeir vilji  leysa málin eða hvernig þeir vilji setja þau í aðra útfærslu.

Lengi hafa tveir forystumenn í verkalýðshreyfingunni farið fram með mikla gagnrýni á lífeyriskerfið. Ég hef ekki náð samhengi í gagnrýni þeirra hvorki hvað varðar rekstur lífeyriskerfisins né hvernig annað og öðruvísi lífeyriskerfi getur tryggt einstaklingum útgreiðslur eða þá hvernig samtryggingin, sem kerfið byggist á, á að greiða meira til sjóðsfélaga. Skerðingin sem stjórnvöld hverju sinni setja á útgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins er sögð vera lífeyriskerfinu að kenna en ekki þeim stjórnvöldum sem ákveða skerðingarnar.
Grunnskilningurinn verður að vera á hreinu á lífeyrissjóðakerfinu, sem er að um leið og farið er að greiða einhverjum meira út úr almenna lífeyrissjóðakerfinu, en viðkomandi hefur lagt til sjóðanna, þá þarf að taka þá peninga af öðrum sem eiga fjármuni þar inni. Ég hef rekið mig ótrúlega oft á að þeir sem eru háværastir í gagnrýninni virðast vita lítið eða ekkert um lífeyriskerfið.

Á öllum aðalfundum lífeyrissjóða sem ég hef setið er talað um rekstur sjóðanna og oft hefur sú umræða verið hörð. Gagnrýni á rekstur þeirra er því alls ekki ný. Nýlega var bent á erlendan sjóð sem er sagður vera stærri en allt okkar lífeyriskerfi og að þar starfi aðeins einn maður við að reka hann. Þegar betur er skoðað og stuðst við úttektir og samanburði OECD  sést að íslensku sjóðirnir koma mjög vel út í samanburði við svona sjóði. Því hefði verið gott að fá inn í umræðuna rekstrarkostnað sjóðsins og málefnalega umræðu um reksturinn.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Á ég sem á réttindi í fjórum sjóðum að hafa sama vægi í þeim öllum til að kjósa í stjórn, þó 98 % réttinda minna séu í Gildi?

Hverjir eiga að kjósa stjórnirnar?

Ég skal vera fyrsti maðurinn til að taka undir gagnrýnina um að lífeyrissjóðir á Íslandi séu of margir. Þá þarf að spyrja hver sé ástæðan fyrir því að þeim fækki ekki hraðar. Svarið er einfalt, það er að finna í því sem þeir félagar gagnrýna mjög, en það er lýðræðið í sjóðunum. Enginn sameinar sjóði nema vilji þeirra sem taka lýðræðislega ákvörðun um það sé til staðar. Það hefur verið ítrekað kallað eftir beinni lýðræðislegri kosningu í stjórnir lífeyrissjóða og þá umræðu þarf að taka. Hins vegar hefur enginn komið fram með útfærslu á henni. Eiga t.d. allir þeir rúmlega 217 þúsund einstaklingar með mismikil réttindi í lífeyrissjóðnum Gildi að kjósa um stjórnarmenn? Á ég sem á réttindi í fjórum sjóðum að hafa sama vægi í þeim öllum til að kjósa í stjórn, þó 98 % réttinda minna séu í Gildi?

Samningur ASÍ og SA um lífeyriskerfið á almenna vinnumarkaðnum er ekkert ósvipað plagg og stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Það hefur verið þróað í um 50 ár. Eign mín í lífeyrissjóðnum mínum er mín eign og því yrði það eignarupptaka ef afhenda á öðrum meira en þeir hafa lagt inn og samþykktir sjóðsins kveða á um í því lýðræðislega formi sem sjóðurinn vinnur eftir í dag.
Það eru ýmsar útfærslur á lýðræðinu.

Allar hugmyndir um breytingar á lífeyriskerfinu þurfa því að vera vel útfærðar og þaulhugsaðar svo þær valdi ekki skaða fyrir þá sem eiga réttindi þar. Hvernig viljum við sem best tryggja okkur öllum áhyggjulaust ævikvöld og afkomutryggingu ef við verðum að fara af vinnumarkaði? Hafi þessir gagnrýnendur aðrar og betri lausnir þá eiga þeir að koma fram með þær. Ég veit fyrir mig, að ég vil ekki eiga það undir misvitrum stjórnmálamönnum eða pólitískum stefnum, hverju mér verður skammtað til að lifa af í ellinni.

Það fær enginn meira út úr kerfinu heldur en hann hefur lagt inn í það og hvernig þeir fjármunir ávaxtast. Helstu fórnarlömb hrunsins 2008, gamla fólkið á Íslandi, hafði tapað mestu af sínum inngreiðslum í sinn lífeyrissjóð frá 1968 til 1980, þar til verðtryggingin var sett á en það var gert í óðaverðbólgu.

 Fáum ekki meira en við leggjum inn

Ég myndi aldrei vilja þurfa að treysta á opinbert eftirlaunakerfi að lokinni starfsævi. Oft gleymist í umræðunni, að þegar við förum á eftirlaun frá lífeyrissjóðunum. munum við greiða skatta af þeim og vera áfram fullir þátttakendur í samfélaginu en ekki þiggjendur. Það má heldur ekki gleymast í umræðunni að ef lífaldur okkar heldur áfram að hækka og fer fram sem horfir mun hlutfallið breytast mjög hratt milli þeirra sem eru á vinnumarkaði og þeirra sem eru á eftirlaunum. Spurningin er hver verður geta samfélagsins til að úthluta fjármunum til gamals fólks í framtíðinni.

Sú mikla gagnrýni sem hefur verið á útgreiðslur úr kerfinu á sér eðlilegar skýringar. Það fær enginn meira út úr kerfinu heldur en hann hefur lagt inn í það og hvernig þeir fjármunir ávaxtast. Helstu fórnarlömb hrunsins 2008, gamla fólkið á Íslandi, hafði tapað mestu af sínum inngreiðslum í sinn lífeyrissjóð frá 1968 til 1980, þar til verðtryggingin var sett á en það var gert í óðaverðbólgu. Einhver hafði á orði að hann hefði átt fyrir einu lambalæri eftir inngreiðslur í öll þessi ár vegna þess að inneignin brann upp á verðbólgubálinu. Það eru nefnilega tvær hliðar á umræðunni um verðtrygginguna. Hún er ekki bara fyrir þá sem skulda að hafa skoðun á henni, hún er líka fyrir þá sem hafa lagt til hliðar í banka eða lífeyrissjóði og vilja raunvirði innistæðunnar til baka. Stærstu fjármagnseigendur á íslandi eru venjulegt launafólk, það má ekki gleyma því.

Uppsöfnuð  innistæða mín mun verða búin þegar ég verð um 83 ára gamall. Ef ég hins vegar verð 99 ára mun ég fá meira út úr sjóðnum en ég hafði safnað inn sjálfur. Þá peninga fæ ég frá þeim sem falla frá fyrr.

Varðandi fjárfestingar lífeyrissjóðanna frá hruni má rifja það upp að það hafa verið fjármagnshöft á Íslandi og því ekki verið um marga fjárfestingakosti að ræða. Síðan hefur verið  mikill pressa á lífeyrissjóðina að taka þátt í atvinnuuppbyggingu í landinu. Fleiri störf, meiri hagsæld. Ég hef aldrei skilið íslenska bankakerfið og alla sérfræðingana þar sem sjaldan eru tilbúnir að lána ef einhver áhætta er fyrir hendi, henni skal koma yfir á lífeyrissjóðina. Það er ekki bæði haldið og sleppt. Eignarhlutur lífeyrissjóða í íslensku atvinnulífi er umræða sem á að vera sívakandi og ábyrg og á málefnalegum forsendum en ekki í upphrópunum.

Innistæðan mín búin 83 ára

Ég skora á alla að kynna sér sín lífeyrisréttindi. Ég mun væntanlega byrja að taka út eftirlaunin mín eftir sjö ár. Ég á orðið mjög góð réttindi sem byggjast aðallega á því að ég hef alla tíð, frá því að ég kom á vinnumarkaðinn, greitt í verðtryggðan lífeyrissjóð. Uppsöfnuð  innistæða mín mun verða búin þegar ég verð um 83 ára gamall. Ef ég hins vegar verð 99 ára mun ég fá meira út úr sjóðnum en ég hafði safnað inn sjálfur. Þá peninga fæ ég frá þeim sem falla frá fyrr. Ef dæmið snýst við, ef ég fell frá fyrir sjötugt, mun ég tryggja greiðslur og framfærslu fyrir aðra með minni inneign sem ég skil eftir mig. Svona virkar samtryggingin fyrir okkur sem náum að ljúka starfsævinni á vinnumarkaði. Ég ætla ekki að fara að fjalla um örorkugreiðslurnar til þeirra sem verða fyrir því óláni að þurfa að fara af vinnumarkaði og fá greitt ævilangt út úr sínum lífeyrissjóði, sem er sennilega besta og ódýrasta afkomutrygging sem hægt er að fá. Inngreiðsla í lífeyrissjóð er ekki eins og inneign á bankabók og er ekki erfanleg. Það verður að hugsa þetta sem samtryggingu eða afkomutryggingu.

Til að átta sig á upphæðunum sem verið er að tala um þá ætla ég að enda þetta á einföldu dæmi:

Einstaklingur sem lýkur starfsævinni eftir 7 ár, árið 2024 og á 400.000 kr. verðtryggða útgreiðslu á mánuði, hefur safnað réttindum sem eru á núvirði 76.800.000 kr. fram til 83 ára aldurs. Lifi hann og verður 99 ára er búið að tryggja honum útgreiðslur á núvirði að upphæð 153.600.000 kr. Fyrir tíu svona einstaklinga þarf að vera til í sjóðnum 1.536.000.000 kr. Miðað við að tryggingafræðileg staða sjóðs sé á núlli þá er til fyrir þessu.

Ef þetta litla dæmi er sett í samhengi við stærð lífeyrissjóðakerfisins þá þurfa að vera til miklir peningar til að standa við þessar skuldbindingar og það er til fyrir þeim.

Höldum málefnalegri gagnrýni áfram, annars stöðnum við.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: