- Advertisement -

Vilja útiloka Sjálfstæðisflokkinn

Stjórnmál „Það er augljóst að það er markmið annarra flokka og framboða að útiloka Sjálfstæðisflokkinn frá áhrifum á landstjórnina,“ skrifar Styrmir Gunnarsson í Morgunblað dagsins í dag.

Styrmi er brugðið. „Þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki jafn öflugur flokkur og hann var er þó ljóst að fylgi hans hleypur á milli fjórðungs og þriðjungs kjósenda. Það er lítið vit í því að útiloka sjónarmið svo stórs hóps fólks frá áhrifum á stjórn landsins.“

Styrmir bendir á minnkandi áhrif Sjálfstæðisflokksins. „Um leið verður sá sami flokkur að gera sér ljóst að áhrif hans eru ekki þau sömu og áður og byggjast nú fremur á sundurlyndi andstæðinga en eigin styrkleika. En gagnkvæm óvild, andúð og jafnvel hatur er komið á það stig, að nú verður skynsamt fólk í öllum flokkum að taka höndum saman um að hreinsa þetta eitur út úr þjóðarlíkamanum.“

Sjálfstæðisflokkurinn er í nýrri stöðu. Enginn vill hann. „Við vissum öll að það var ljótt að skilja einhvern eða einhverja útundan á leikvellinum við skólann í gamla daga. Við eigum að hafa þroska til að skilja að á leikvelli landsmálanna, getur það ekki verið sérstakt markmið að þessi eða hinn megi ekki vera með. Við erum of fá til þess að láta það eftir okkur að standa í svona sandkassaleik. Hagsmunir okkar sem búum á þessari eyju eru að standa saman og snúa bökum saman við uppbyggingu samfélagsins. Við erum ótrúlega heppin að búa hér og að eiga svo gjöfular auðlindir sem landið og hafið í kringum það er svo ríkt að. Það er tímabært að slíðra sverðin og fara að vinna saman.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: