- Advertisement -

Samningurinn við Sinnum er ekki einsdæmi hjá bæjarstjórn Garðabæjar

Stjórnmál Fólkið í bænum, sem á bæjarfulltrúa í bæjarstjórn Garðabæjar, hefur ítrekað bent á að verklagsreglur voru ekki virtar þegar bærinn samdi við fyrirtæki fyrrverandi bæjarstjóra Garðabæjar, Ásdísar Höllu Bragadóttur.

Í fréttatilkynningu segir: „Vegna fréttar Fréttablaðsins í dag um samning Garðabæjar við fyrirtæki í eigu fyrrverandi bæjarstjóra bæjarins og gerður var án útboðs er rétt að taka fram að í bæjarstjórn hefur fulltrúi FÓLKSINS- í bænum ítrekað bent á að verklagsreglur eru ekki virtar í þessum efnum. Samningurinn í þessu tilfelli var gerður við Sinnum ehf. vegna heimaþjónustu og hleypur kostnaður vegna hans upp á tugi milljóna króna. Þessi samningur er ekki einsdæmi en þrátt fyrir ítrekaðar bókanir og fyrirspurnir um slík mál fást lítil svör við eðlilegum spurningum um verklag. Gildir það jafnt um samning við fyrrverandi bæjarstjóra sem og aðra samninga um lögfræðiþjónustu, tölvu- og tækniþjónustu, hönnunar- og verkfræðiþjónustu, framkvæmdakostnað eða ritun Sögu Garðabæjar. Kostnaður við síðast talda verkefnið er þegar orðið hátt í 70 milljónir og var einnig gert án útboðs.  FÓLKIÐ- í bænum bendir á að innanríkisráðuneytið getur haft frumkvæði að því að gera formlega athugun á því verklagi sem er viðhaft í útboði á þjónustu og verkefnum sveitarfélagsins en slíkt er heimilt skv. 112 gr. sveitarstjórnarlaga 138/2011. Til framtíðar litið er nauðsynlegt að bókhald bæjarins verði opnað eins og framboðið hefur barist fyrir á kjörtímabilinu þannig að íbúar séu upplýstir um kostnað og við hverja samningar sveitarfélagsins eru gerðir við. Þá eiga samningar yfir ákveðnum fjárhæðamörkum að fara í útboð. Á laugardaginn gefst svo kjósendum að velja með atkvæði sínu með hvaða hætti þeir vilja sjá þessum málum hagað í sveitarfélaginu. FÓLKIÐ- í bænum mun tryggja að öllu verklagi í útboðsmálum sveitarfélagsins verði breytt til hins betra.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: