Íslensk óvandvirkni og steinull skapa myglu
- mygla er í tíu þúsund nýlegum íbúðum eða húsum. Náttúrulegaloftræsting dugar ekki lengur.
Byggingar Myglusveppir eru í um tíu þúsund nýlegum íbúðum eða húsum. Óvandvirkni og steinull kunna að vera orsakavaldar. Þetta kemur fram í grein sem Pálmi Stefánsson efnaverkfræðingur skrifar og birt er í Morgunblaðinu í dag.
Pálmi nefnir Steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki. „Eitthvað hefur verið heimtað með byggingarreglugerðum að betur væri einangrað og frauðplastinu að mestu verið útrýmt. Og svo kom skellurinn, um 10 þúsund hús eða íbúðir byggðar á síðustu árum eru í dag áætlaðar með myglu. Og talað er um að rífa skóla og stórhýsi. Helsta breytingin er íslensk steinull sem er svo almennt notuð utan á byggingarnar. Steinull er víða notuð og gefst vel en hún þolir ekki raka og vindálag því miður að mati erlendra. Sé íslenska steinullin jöfn að gæðum og erlend þá er vöntun á rakavarnarlagi og vind- þéttingu auk loftræstrar regnklæðningar, sem er allt þrennt yfirleitt notað erlendis, aðalmismunurinn. Þá gæti íslensk óvandvirkni og verklag átt sinn þátt. Þá er mun meira einangrað alls staðar í heiminum í dag í orkusparnaðarskyni og kallar það á breytingu í loftræstingu. Sú hefð- bundna náttúrulega loftræsting dugar nú ekki lengur til að koma raka í heitu innloftinu út og fá inn kalt rakaminna útiloft. Fyrrum var álitið í besta lagi að hiti og raki færi út í gegnum útveggi húsanna. Í dag eru lágorkuhúsin byggð á þeirri forsendu að sem minnst vatnsgufa og varmi fari út öðruvísi en um loftræstikerfið,“ skrifar Pálmi.
En förum við of hratt? „Forfeður okkar kunnu að byggja lágorkuhús úr torfi og grjóti. Hvernig væri að byggja fyrst nokkur lítil tilraunahús til að læra af? Ofeinangrun og lítil eða engin loftræsting er vísasti vegurinn til glötunar fyrir menn og hús.“