- Advertisement -

Bjarni og Seðlabankinn svara ekki

-Sigurður Ingi Jóhannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, vill ítarleg svör frá forsætisráðherra og Seðlabanka Íslands. Honum hefur ekki verið svarað.

Sigurður Ingi Jóhannsson. Honum hefur ekki verið svarað.

Skömmu fyrir þinglok í vor lagði Sigurður Ingi Jóhansson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, fram sex ítarlegar spurningar um starfshætti Seðlabankans. Sigurður Ingi óskar svara frá forsætisráðuneytinu. Sjá fyrirspurnina neðar hér á síðunni.

Viðskiptablaðið greinir frá þessu í dag og ræðri við Sigurð Inga þess vegna. Þar segir hann m.a. „Ég veit að fyrirspurn er umfangsmikil og átti alveg von á því að það tæki tíma að taka þessar upplýsingar saman. Ég var þess vegna alveg rólegur framan af sumri en nú finnst mér þessi töf óeðlileg. Ef Seðlabankinn á í erfiðleikum með að svara og hann telur að það gildi bankaleynd um eitthvað af því sem ég spyr um þá segir hann það bara en það að ekkert svar berist er ekki eðlilegt.“

Víst er að Seðlabankinn hefur höndlað með mikla fjármuni. „Þarna er verið að höndla með alveg gríðarlega fjármuni og það er gert í gegnum opinbert apparat. Það er fullkomlega eðlilegt að þingið, sem eftirlitsaðili með framkvæmdavaldinu, fái þessar upplýsingar. Ef bankinn telur að ekki sé hægt að veita þessar upplýsingar almenningi, sem mér finnst reyndar óeðlilegt, þá væri í það minnsta hægt að koma með þær fyrir lokaða þingnefnd,“ segir Sigurður Ingi jafnframt í viðtalinu við Viðskiptablaðið.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fyrirspurn Sigurðar Inga

  1. Hversu margar eignir/kröfur hefur Seðlabanki Íslands selt, beint eða í gegnum dótturfélög, svo sem ESÍ, frá því að honum var falin umsjón þeirra eftir bankahrunið árið 2008, hvert var söluandvirðið í heild og sundurliðað eftir árum, hverjir keyptu og á hvaða kjörum, sundurliðað ár fyrir ár?
  2. Í hvaða tilvikum var lánað fyrir kaupunum, við hversu hátt lánshlutfall var miðað, hvaða skilyrði voru sett um tryggingar fyrir greiðslu kaupverðs, hver var stefnan um vaxtakjör, var í einhverjum tilvikum vikið frá henni og ef svo er, hvers vegna?
  3. Hefur Seðlabankinn, beint eða í gegnum dótturfélög, keypt eignir/kröfur eða fengið framseldar með öðrum hætti, svo sem í skiptum fyrir aðrar eignir/kröfur, frá bankahruni, hvaða eignir/ kröfur voru það, sundurliðað ár fyrir ár, voru þær skráðar á markaði, hvaða ástæður voru fyrir kaupunum og á hvaða lagaheimild byggði Seðlabankinn eða dótturfélög kaupin?
  4. Hafa eignir/kröfur verið seldar aftur og ef svo er, hver er munurinn á kaup- og söluverði, hverjir voru kaupendur og seljendur í þeim viðskiptum og hefur Seðlabankinn eða dótturfélög fengið framseldar til sín eignir sem rýrnað hafa í verði eða jafnvel tapast frá því að þeirra var aflað?
  5. Fyrir hvaða sérfræðiþjónustu, hverjum og hve mikið, hefur Seðlabanki Íslands, beint eða í gegnum dótturfélög, greitt vegna sölu á eignum/kröfum frá og með árinu 2013 til dagsins í dag, var þjónustan auglýst og/eða boðin út, hvernig var staðið að ráðningu á þjónustuaðilum, hver voru sjónarmið til grundvallar ráðningum og hvernig skiptust greiðslur milli aðila?
  6. Var sala á eignarhlutum/kröfum Seðlabanka Íslands eða dótturfélaga bankans ávallt auglýst, hvernig var staðið að útboði/ sölu í þeim tilvikum, við hvaða reglur var miðað, voru viðmiðin sambærileg í öllum tilvikum og ef ekki, hvers vegna?

Svör óskast sundurliðuð milli Seðlabanka Íslands og dótturfélaga eftir því sem við á.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: