- Advertisement -

Risinn rumskar ekki

Leiðari Þingmenn og ráðherrar Viðreisnar eru einsog óþekkir krakkar að gera bjölluat. Þeir gera allt til að skaprauna móðurflokki ríkisstjórnarinnar. Bjölluatið á Háaleitisbraut 1 virkar bara ekki. Ekkert virðist fá risann til rumska. Hann hefur sofið værum blundi frá því snemma í vor. Og sefur enn.

Viðreisn vantar sérstöðu. Búið er að eyða sæmilega miklu púðri í að dæma krónuna úr leik. Nokkuð sem fer mjög í taugar móðurflokksins. Sá lætur samt á engu bera. Fer ekki til dyra. Veit að best er að láta ekki vanþóknunina í ljós.

Reynt hefur verið að vekja risann með boðun hærri veiðigjalda. Allt kom fyrir ekki. Næst voru það sauðfjárbændur og allt er við það sama. Þá voru það allir bændur. Það dugði ekki heldur.

Alveg er sama hvað ráðherrar og þingmenn Viðreisnar gera. Risanum er alveg sama. Risinn veit að hann hefur neitunarvald í ríkisstjórn. Hefur haft það áður og hefur beitt því áður. Því má segja að tilraunir Viðreisnar til að finna flokknum sérstöðu séu að verða hallærislegar. Engu verður breytt.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þrátt fyrir vilja og löngun til að skaprauna móðurflokknum, gengur ekkert. Ekki eru einu sinni vitað hvort Bjarni hafi haft fyrir því að snúa sér á hina hliðina í lengsta svefni nokkurs forsætisráðherra. Og það þrátt fyrir tilburði Viðreisnar.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: