Metið er að auðlindarenta af orkufyrirtækjum gæti numið allt að sjö milljörðum á ári. Við útreikningana var miðað við hvernig skattlagningunni er háttað í Noregi. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Oddnýjar Harðardóttur.
Virkjanirnar sem myndu falla undir skattheimtuna eru í eigu HS Orku, Landsvirkjunar, Orku náttúrunnar, Orkubús Vestfjarða og Orkusölunnar.
„Árétta skal að hér er einungis um grófa nálgun að ræða en líkt og fram hefur komið eru niðurstöðurnar háðar ýmsum fyrirvörum og óvissuþáttum. Til að fá nákvæmara og áreiðanlegra tekjumat þarf að fara í viðameiri rannsóknarvinnu en þá sem fram fór við vinnslu þessa svars. Meðal annars þarf að afla mun ítarlegri gagna en fyrir liggja opinberlega um starfsemi raforkufyrirtækja, þar á meðal upplýsinga fyrir hverja virkjun fyrir sig og fá uppgefið raforkuverð langtímasamninga sérstaklega. Þá þarf einnig að skoða nánar hvort hinn sérstaki arðsemisfrádráttur sem notaður er við útreikning skattsins í Noregi eigi við hér á landi,“ segir meðal annars í svarinu.
Forsendur voru til dæmis sóttar í ársreikninga félaganna.