Aum er staða Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Sú staðreynd að borgarstjórinn hafi komist hjá að vita, að hluti fjöru borgarinnar væri þakin saur og öðrum viðbjóði í langan tíma, er honum til minnkunnar.
Borgarstjórinn sem enginn hirðir um að láta vita af stórkostlegu mengunarslysi í borgarlandinu er í erfiðum málum. Slíkur nýtur hið minnsta ekki mikillar virðingar.
„Ekki benda á mig… …spyrjið þá sem voru á vakt…,“ söng Bubbi um árið. Þetta er tónn borgarstjórans í dag.
Dagur hefur orðið sér til skammar og það er allt í lagi með það. Hitt er alvara, það er að fólk hafi ekki verið varað við. Að fólki hafi ekki verið ráðlagt að forðast skítafjöruna er nokkuð sem verður að skoðast af mikilli alvöru. Dagur þarf ekkert að koma þar nærri. Hann er hvorki upphaf né endir þessa máls.
Þetta mál er sem hvalreki á fjörur minnihlutaflokkanna. Nú hætta þeir, allavega um stundarsakir, að tala um áttfaldar akgreinar um allt og gatnamótum á mörgum hæðum og munu þess í stað nudda meirihlutanum upp úr fjörunni við Faxaskjól.
Dagur þarf að byrja á að gera sér grein fyrir sinni aumu stöðu þegar hann er ekki einu sinni upplýstur um alvarlegt mengunarslys í miðri borgarbyggðinni.
-sme