Ferðaþjónustan hefur keyrt sig í krísu
- stjórnarformaður Norðursiglingar segir hátt verðlag ferðaþjónustunnar skaða hana og að slá verði af verði. Hann segir veitingastaði hafa farið offari.
Pétur J. Eiríksson, sem er stjórnarformaður Norðursiglinga á Húsavík, var gestur í Hrafnaþingi á ÍNN, hjá Ingva Hrafni Jónssyni.
Pétur sagðu brýnt að álagning á veitingar, gistingar og annað verði endurskoðaðar þar sem há álagning skaði ferðaþjónustuna nú. Hann tók nokkur dæmi um hátt verðlag, þ.e. er háa álagningu. Sjálfur sagðist hann ekki vera saklaus af þessari stefnu. Norðursigling rekur meðal annars Gamla Bauk sem rataði í fréttir fyrir að selja rúnstykki á 1.190 krónur.
„Við seljum ekki rúnnstykki hérna,“ segir Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar við Rúv. „Ciabatta brauð er mun matarmeira en hefðbundin rúnstykki með skinku og osti, það er líka sósa og grænmeti á okkar brauðum,“ sagði hann þegar hann rökstuddi verðlagninguna.
Pétur sagði anda hárrar álagningar vera ráðandi í ferðaþjónustunni. Nú sé krísa, ferðamenn koma í styttri ferðir en áður og tekjurnar eru því lægri af hverjum og einum. Hann sagðist gera sér vonir um að þetta leiði til stefnubreytinga.
Þátturinn er ekki enn aðgengilegur á vefsíðu ÍNN.