Líf ríkisstjórnarinnar fjarar út
- Viðreisn gert að blóraböggli komandi átaka milli ríkisstjórnarflokkanna. Ósætti magnast innan Sjálfsætðisflokksins. Ákall um landsþing Viðreisnar. Björt framtíð liggur í skjóli.
Dauði ríkisstjórnarinnar virðist óumflýgjanlegur. Drjúgur meirihuti þjóðarinnar hefur vantrú á ríkisstjórninni og sú hugsun nær sífellt meiri hljómgrunni innan stjórnarflokkanna. Ágreiningnum og ósættinu er ekki lengur leynt. Allt er opinberað.
Helst er að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og fjármálaráðherra, rembist við að halda uppi jákvæðri ásýnd ríkisstjórnarinnar. Í þeirri viðleitni hefur hann gert mistök sem hafa kallað á föst skot og jafnvel háðung frá stóra samstarfsflokknum.
Vandræði í Viðreisn
Meðan Benedikt reynir það sem hann getur er ókyrrð í hans eigin flokki. Þar er sagt að þegar hafi verið kallað eftir að aukalandsþing verði kallað saman. Þar verði forystan að mæta flokksfólki og jafnvel eigin örlögum. Stutt er til sveitastjórnarkosninga og innan flokksins er ótti þeirra vegna.
Nánast dag hvern notar Davíð Oddsson sína nafnlausu pistla að veitast að Viðreisn. Davíð hefur mikill áhrif og hann gerir tvennt, hann hlustar á sitt nánasta bakland og það sem meira er, hann gefur tóninn. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er í skotmarki Davíðs þessa dagana. Fyrir fáum dögum var það Benedikt Jóhannesson.
Þorgerður Katrín hefur drýgt glæp, eða glæpi, að mati Davíðs. Hún hefur skipað nefnd til endurskoðunnar á kvótalögunum og hún skipaði Þorstein Pálsson sem formann nefndarinnar, það er heldur ekki Davíð að skapi. Þetta verður varla fyrirgefið. Barátta Davíðs mun veikja ríkisstjórnina enn frekar og ekki verður hætt fyrr en ríkisstjórnin, og þá áformin um breytingarnar, verða öll.
„Áður en Þorgerður sá að hún þyrfti atbeina Viðreisnar til að komast aftur á þing var hún talsmaður aflamarkskerfisins og gagnrýndi þá sem vildu umbylta kerfinu. Í umræðum á þingi árið 2010 kallaði hún til dæmis fyrninguna „galna leið“ en hefur svo fyrir hönd flokks sem berst fyrir einni útfærslu fyrningarleiðarinnar skipað nefnd til að umbylta aflamarkskerfinu í nafni sáttar.“ Þetta er tilvitnun í Staksteina dagsins í dag.
Hvor er sterkari?
Innan Sjálfstæðisflokksins keppast þeir nú um hvor er sterkari. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra eða Davíð Oddsson. Líkurnar eru Davíð í vil. Davíð tekst að særa stjórnarsamstarfið dag hvern.
Björt framtíð er á líknardeild stjórnmálanna. Flokkurinn öðlaðist nýtt og óvænt líf í kosningunum í október. Það hefur fjarað út. Engin virðist hirða lengur um að tala um flokkinn þann. Samt er alvara á ferð. Björt framtíð á bæjarfulltrúa í fjórum burðugum sveitarfélögum; Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Akranesi. Og það styttist til kosninga. Hvort boðið verði aftur fram í nafni Bjartrar framtíðar á eftir að koma í ljós. Að auki er baklandið að bresta.
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hefur gert gott betur en missa tilrú þjóðarinnar. Hún hefur misst tiltrú margra flokksmanna stjórnarflokkanna. Lífslíkurnar eru ekki miklar. Svo mikill er þungi stjórnarandstæðinga innan stjórnarflokkanna.
Sigurjón M. Egilsson.