Þakka kjararáði slátrunina á SALEK
- Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, skilja reiði og gremju sinna félagsmanna vegna ákvarðana kjararáðs.
„Það er morgunljóst að fjölmargir af okkar félagsmönnum eru agndofa og æfir af reiði yfir þeirri ákvörðun kjararáðs að hækka enn og aftur þá sem heyra undir kjararáð um allt að 300 þúsund á mánuði með afturvirkni sem nær í sumum tilfellum allt að eitt og hálft ár aftur í tímann.
Við skiljum reiði og gremju okkar félagsmanna fyllilega í ljósi þess að í hvert sinn sem kjarasamningar verka- og verslunarfólks eru lausir þá skella þessir snillingarnir frá Samtökum atvinnulífsins, Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu á fóninn hræðsluáróðursplötunni þar sem lög eins og „ekki má ógna stöðugleikanum“ og „stöðva verður höfrungahlaupið“ er að finna!
Það er hins vegar athyglisvert að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, Seðlabankans, fjármálaráðneytisins og ráðamenn almennt hafa ekki miklar áhyggjur af „stöðugleikanum“ né „höfrungahlaupinu“ þegar kjararáð hækkar laun um hundruð þúsunda á mánuði með afturvirkni sem nemur milljónum.
Það ber þó að þakka kjararáði fyrir að hafa séð algerlega um að slátra endanlega öllum hugmyndum um nýtt vinnumarkaðsmódel í anda Salek samkomulagsins og hafa séð til þess að yfirgnæfandi líkur eru á að kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði verði sagt upp í febrúar á næsta ári.
Það er mat okkar að það sé útilokað fyrir verkalýðshreyfinguna í heild sinni annað en að sækja sambærilegar kjarahækkanir handa almennu launafólki í ferbrúar á næsta ári og kjararáð hefur nú úthlutað þeim sem heyra undir ráðið.
Það er sem sagt mat okkar að útilokað sé fyrir forystu ASÍ að segja ekki upp kjarasamningum í febrúar á næsta ári og við í verkalýðshreyfingunni verðum síðan að sækja af alefli sambærilegar kjarabætur til handa almennu launafólki því þetta óréttlæti og misskipting í íslensku samfélagi er ekki hægt að láta átölulaust stundinni lengur.
Kjararáð hefur lagt línurnar hvað launabreytingar varðar!“
Virðingarfyllst,
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR