- Advertisement -

Kína: Hvar eru stúlkurnar?

Það er að kynjagap í Kína, milli karla og kvenna. Sú stefna kínverskra stjórnvalda sem felur í sér að hjón mega aðeins eignast eitt barn, hefur haft þær afleiðingar að um 50 milljónir kvenna vantar hreinlega í Kína. Margir karlar hljóta því þau örlög að finna sér aldrei lífsförunaut og eignast aldrei afkvæmi. Það þykir einnig fínna og efnahagslegra hagkvæmara að eignast dreng og árlega er því milljónum stúlkufóstra eytt. Þá hefur kvennaskortur einnig þær afleiðingar  að konum er rænt eða þær seldar hæstbjóðanda og ýtir þetta því undir ógeðfelldasta iðnað sem fyrir finnst; verslun með manneskjur, sem samkvæmt kínverskum yfirvöldum er vaxandi vandmál þar í landi.

Talið er að ef þessi stefna hefði ekki verið sett á, væru Kínverjar að minnsta kosti um 2 milljarðar íbúa samkvæmt þeirra eigin útreikningum.

Kína er fjölmennasta þjóð jarðarinnar, talið er að alls búi um 1,3 til 1,4 milljarðar manna í Kína nútímans. Það er hins vegar bara um 7 prósent af landssvæði jarðkringlunnar. Þessar staðreyndir leiddu til þess að árið 1979 gripu þarlend stjórnvöld í taumana og settu á svokallað ,,eins barns-stefnu“, með það að markmiði að sporna við of mikilli fólksfjölgun. Talið er að ef þessi stefna hefði ekki verið sett á, væru Kínverjar að minnsta kosti um 2 milljarðar íbúa samkvæmt þeirra eigin útreikningum. Sameinuðu þjóðirnar hafa líka reiknað þetta dæmi og komist að enn hærri tölu, eða að þeir yrðu um 2,5 milljarðar!

Skiptar skoðanir eru um stefnuna og Peking-búinn Li Jun telur hana vera af hinu góða: ,,Stefnan hefur haldið fjölgun Kínverja í skefjum og hún hefur leitt til betri lífsgæða.“ Sjálf á hún eitt barn. Annar Peking-búi, Liu Gi, sem er leigubílsstjóri segist að hluta til skilja stefnuna en hann er gagnrýninn á sama augnabliki: ,,Ég vill ráða því hvað ég eignast mörg börn, mér finnst að stjórnvöld hefðu átt að leyfa fleiri börn, þegar efnahagur þjóðarinnar batnaði.“

Milljónir fóstureyðinga

Kína er alræðisríki og hefur verið slíkt síðan ,,hinn mikli leiðtogi“, Mao Tse Tung, bar sigur af hólmi í baráttu sinni við þjóðernissinnann Chang Kai Shek árið 1949 og flokk hans, Kuomintang. Kommúnistaflokkur Kína er sá stærsti sinnar tegundar í veröldinni, en talið er að 70 milljónir kínverja séu skráðir í flokkinn. Til ,,gamans“ má geta þess að um 65 milljónir manna búa í Frakklandi! Allar tölur í sambandi við Kína hafa einhvern veginn þá tilhneigingu að verða fáránlegar.

Með framförum í fósturgreiningartækni hefur frá byrjun áttunda áratugar síðstu aldar verið mögulegt með öruggari hætti en áður að segja til um kyn fóstra. Þessi tækni hefur því verið notuð á mjög ákveðinn hátt í þeim tilgangi að eyða kvenkyns fóstrum. Talið er að árlega sé milljónum stúlkufóstra eytt og að á síðari árum sé þessi tala allt að fimm til sex milljónir. Fjöldamörg dæmi eru einnig um að ,,fóstrum“ hafi verið eytt mjög seint á meðgöngu. Þá hafa aðrar aðferðir verið notaðar, til dæmis að stúlkum hafi verið drekkt strax við fæðingu og eða þær hreinlega bornar út og hlotið þau grimmilegu örlög að deyja einar og yfirgefnar.

Allt þetta hefur leitt til þess að nú er talið að hlutfall fæddra drengja á móti stúlkum sé 100 á móti 119, þ.e. að næstum 20 prósent fleiri drengir fæðist árlega. Dæmi eru til þess að í borgum sé hlutfall karla helmingi hærra en kvenna. Hvergi í heiminum er að finna jafnmikið ójafnvægi á milli kynja og í Kína. Sem dæmi um þetta er að á árunum 1953-2000 var ekki að finna þær aðstæður þar sem stúlkur voru í meirihluta í aldurshópunum 15-19 og 20-24 ára. Talið er að á hverju ári fæðist um tveimur milljónum fleiri drengir en stúlkur og að árið 2020 (eftir aðeins 12 ár!) verði um 40 til 50 milljónir kínverskra karla, sem ekki geti fundið sér maka.

Þá hafa yfrvöld í Shanghai einnig afnumið sérstök ákvæði sem sögðu til um að fjögur ár þyrftu að líða á milli barna hjá fjölskyldum sem höfðu fengið leyfi til þess að eignast fleiri en eitt barn.

En hvers vegna eru stúlkur svona illa séðar í Kína? Kína hefur lengi verið ,,karlaveldi“, stýrt af körlum, fyrir karla. Hefðir þessa samfélags segja til um að það sé skylda hvers sonar að færa föður sínum son sem barnabarn, m.a. til þess að friða sálir forfeðranna!  Þetta eru hugmyndir sem rekja má fleiri hundruð ár aftur í tímann. En þetta hefur einnig hreina og klára efnahagslega hlið, því líkamskrafta drengja og karlmanna er óskað í landbúnaðarframleiðsluna á landsbyggðinni. Piltar eru einfaldlega álitnir vera verðmeiri en stúlkurnar. Þá er það einnig þeirra hlutverk að sjá foreldrum sínum farborða þegar aldurinn færist yfir. Hér eru því komnir fram þættir sem eru stúlkum beint í óhag og hafa í raun haft grimmdarlegar afleiðingar í för með sér.

Minnihlutahópar hafa sérstöðu

En aðstæðurnar eru þó mismunandi eftir svæðum og það eru ekki allir íbúar Kína sem þurfa að hlíta strangri stefnu stjórnvalda um barneignir, t.d. fá ýmsir minnihlutahópar að stjórna sínum barneignum, án afskipta stjórnvalda. Á ýmsum svæðum er það einnig svo að fleiri en eitt barn er leyft, dæmi um þetta er borgin Guangzhou í suðurhluta Kína, en þar hafa yfirvöld hvatt íbúana til þess að eignast fleiri en eitt barn, vegna þess að hlutfalla eldri íbúa er of hátt. Þá hafa yfrvöld í Shanghai einnig afnumið sérstök ákvæði sem sögðu til um að fjögur ár þyrftu að líða á milli barna hjá fjölskyldum sem höfðu fengið leyfi til þess að eignast fleiri en eitt barn.

„Eins barns-stefnunni“ svokölluðu hefur verið framfylgt af hörku, stífri stjórnun og hótunum um sektir. Dæmi eru til þess að konur hafi verið þvingaðar til ófrjósemisaðgerða eða að fara í fóstureyðingu.  Árið 2005 misstu embættismenn í Shandong-héraðinu störf sín, þar sem upp komst að þeir hefðu neytt konur til áðurnefndra aðgerða. Hins vegar var sá einstaklingur sem uppljóstraði þessu sjálfur dæmdur til fjögurra ára fangelsisvistar fyrir, skemmdir á eignum og að hafa orsakað tafir í umferðinni!“ Verjandi mannsins telur hinar fáránlegu ákærur hafa verið hefnd embættismannanna gagnvart honum fyrir að hafa afhjúpað meðferð þeirra á konunum.

Þar að auki bætist við að það stefnir í að í kringum 2020 muni vinnufærum Kínverjum byrja að fækka og að færri vinnandi hendur þurfi því að brauðfæða sífellt fleiri einstaklinga sem ekki eru úti á vinnumarkaðinum.

Háar fjársektir og atvinnumissir

Að brjóta gegn stefnunni getur einnig kostað háar fjársektir. Hjón sem búa í borg geta þurft að borga allt að einni milljón króna í sekt, sé um ,,óleyfilegt“ barn að ræða, en íbúar á landsbyggðinni borga umtalsvert minna. Þá getur það einnig kostað viðkomandi vinnuna, vinni hjónin hjá hinu opinbera. Kerfi þetta hefur verið gagnrýnt harkalega, en það er einnig hægt að komast undan því ef um efnafólk er að ræða, sem getur borgað fyrir það að fá að eignast fleiri börn. Það er því ekki sama Jón eða séra Jón!

Enn eitt áhyggjuefnið í þessu sambandi er að Kínverjar verða sífellt eldri, sem er afleiðing aukinnar velmegunar. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna, ,,China Human Development Report“ fyrir árið 2005, kemur fram að undanfarinn aldarfjórðung hafi hagvöxtur verið með eindæmum í Kína, eða tæp tíu prósent að meðaltali ár hvert. Enda er Kína orðið mjög mikilvægt fyrir efnahagsmál á heimsvísu. En öldrunin er vandamál og þeim sem eru yfir sextugt fer sífellt fjölgandi og eru nú um tíundi hluti þjóðarinnar. Samkvæmt útreikningum S.Þ. verða þeir hins vegar tæpur þriðjungur í kringum 2050. Þetta er hærra hlutfall en í Bandaríkjunum.

Þessi vaxandi fjöldi aldraðra í Kína mun að öllum líkindum krefjast aukinna umbóta á hinu félagslega kerfi, sem fram að þessu hefur verið afar vanþróað. Þetta kemur því að öllum líkindum til með að hafa mikil áhrif. Þar að auki bætist við að það stefnir í að í kringum 2020 muni vinnufærum Kínverjum byrja að fækka og að færri vinnandi hendur þurfi því að brauðfæða sífellt fleiri einstaklinga sem ekki eru úti á vinnumarkaðinum.

Þar með er ekki útilokað að gangtruflanir geri vart við sig í þeim efnahagsmótor sem á undanörnum árum hefur verið á hvínandi snúning í Kína, eða að minnsta kosti að snúningurinn verði ekki jafn hraður og verið hefur.

Texti: Gunnar Hólmsteinn Ársælsson.

Greinin birtist í Mannlífi 2008.

Nokkrar staðreyndir um Kína:

Opinbert nafn: Alþýðulýðveldið Kína (stofnað 1949).

Höfuðborg: Peking.

Núverandi leiðtogi: Hu Jintao forseti.

Stjórnarfar: Kommúnískt alræðisríki með einum flokki, Kommúnistaflokknum.

Fjórða stærsta land heims: á eftir Rússlandi, Kanada og Bandaríkjunum.

Stærð: 9,5 milljónir ferkílómetra.

Loftslag: Heitt (trópískt) í suðri, en kalt í norðri.

Hæsta fjall: Mount Everest, 8.500 metrar.

Auðæfi: Mikið af málmum, kolum og gasi. Vatnsorka er gríðarleg.

Meðallífslíkur: 72 ár.

Trúarbrögð: Búddismi.

Tungumál: Kínverska.

Læsi: Yfir 90% að meðaltali.

Þjóðarframleiðsla: 5.300 dollarar (iðnaður u.þ.b. helmingur).

Vinnuafl: 800 milljónir.

Fjöldi farsíma: Tæpar 500 milljónir.

(Heimild: CIA-The World Factbook)

 

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: