Stjórnsýsla Biskup Íslands hefur kallað saman ráðgjafarhóp til að fjalla um hlunnindi kirkjujarða og prestsetra. Hópurinn mun einnig fjalla um aukagreiðslur til presta og annarra starfsmanna sókna og kirkju.
Hópnum er ætlað að vera biskupi til ráðgjafar um ofangreind málefni, taka saman greinargerð um núverandi stöðu og eftir atvikum gera tillögur til biskups um það sem nefndin telur að betur mætti fara. Biskup mun í framhaldi af vinnu hópsins leggja tillögur sínar fyrir stofnanir kirkjunnar þar sem þær verða ræddar og tekin afstaða til þeirra eftir þá formlegu málsmeðferð sem um slíkar tillögur gildir.
Ofangreind málefni hafa á undanförnum árum verið rædd á vettvangi kirkjunnar. Ýmsar breytingar og lagfæringar hafa verið gerðar á gildandi reglum en á sumum sviðum er þörf á að skýra reglurnar og jafnvel móta nýjar sem betur falla að því þjóðfélagi sem við nú búum í. Skipan ráðgjafarhópsins er ætlað að flýta þeirri vinnu og auðvelda biskupi að taka afstöðu til þessara mikilvægu mála.
Formaður hópsins er Óskar Magnússon hrl., og útgefandi. Aðrir í hópnum eru Svana Helen Björnsdóttir, forstjóri Stika, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, verkefnisstjóri. Þau eiga öll sæti í sóknarnefndum í þjóðkirkjunni, Óskar er formaður sóknarnefndar Breiðabólstaðarsóknar, Svana Helen er varaformaður sóknarnefndar Seltjarnarnessóknar og Steinunn Valdís er í sóknarnefnd Laugarnessóknar.
Hópurinn þiggur ekki laun fyrir störf sín.