- Advertisement -

Sigmundur Davíð: Engin áform um að selja hlut í Landsvirkjun

Stjórnmál  „…hvort ég liti á það sem einkavæðingu ef lífeyrissjóðir keyptu ríkiseignir og hvort til stæði að selja hlut í Landsvirkjun. Að sjálfsögðu væri það einkavæðing ef lífeyrissjóðum yrðu seldar ríkiseignir og það eru engin áform um að selja hlut í Landsvirkjun, hvorki lífeyrissjóðum né öðrum,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi, 31. mars síðastliðinn, eða fyrir tæpum tveimur mánuðum. Hann er því allt annarrar skoðunar en Bjarni Beneditksson fjármálaráðherra sem er þeirra skoðunar að selja eigi lífeyrissjóðum hluta í Landsvirkjun. Bjarni segir það ganga upp þar sem lífeyrissjóðirnir eru í eigu allra landsmanna.

Aðkoma lífeyrissjóða hugsanleg

„Að sjálfsögðu væri það einkavæðing ef lífeyrissjóðum yrðu seldar ríkiseignir og það eru engin áform um að selja hlut í Landsvirkjun, hvorki lífeyrissjóðum né öðrum. Það er þó rétt að geta þess að það getur vel verið æskilegt að lífeyrissjóðir eða aðrir komi að fjármögnun, einkum í verkefnafjármögnun t.d., til að gera okkur enn betur kleift að nýta þau tækifæri sem hér eru til að framleiða aumhverfisvæna orku,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Alþingi.

Engin áform um einkavæðingu

Í ræðu sinni sagði Sigmundur Davíð að honum þætti ánægjulegt að Katrín Jakobsdóttir hafði sagt Landsvirkjun mikilvægt fyrirtæki. Og bætti við: „Ég held að háttvirtur þingmaður Steingrímur J. Sigfússon hafi einhvern tímann talað um fyrirtækið sem gullgæs eða á einhvern hátt lýst því að það væri ómetanlegt vegna þeirra tekna sem það skapaði. Við getum verið sammála um að Landsvirkjun er gríðarlega mikilvægt fyrirtæki fyrir landið vegna þess að með framleiðslu umhverfisvænnar orku skilar það samfélaginu miklum arði.“

Og í lok ræðunnar sagði forsætisráðherra: „Til þess að gera langa sögu stutta getur vel verið að einhvers staðar sé hægt að ná fram hagkvæmni í þágu almennings með því að fela einkaaðilum verkefni. Ég nefndi verkefni í samgöngumálum sem hafa verið framkvæmd af einkaaðilum um langt skeið, en það eru engin sérstök áform um einkavæðingu.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: