Þrengja mjög að frelsi sérfræðilækna
- breytingar á vinnutímatilhögun á Landspítala mun draga mikið úr möguleikum lækna til að starfa utan sjúkrahússins.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir í vikulegum pistli sínum, að Landspítalinn hafi samþykkt, fyrr á þessu ári, ráðningarfyrirkomulag sérfræðilækna. Yfirlæknum við spítala og fleirum hafa verið kynntar breytingarnar.
„Tilgangurinn er að bæta þjónustu, auka öryggi sjúklinga og stytta meðallegutíma. Markmið stefnunnar er að auka meðalstarfshlutfall sérfræðilækna við Landspítala þannig að sem flestir sérfræðilæknar verði í fullu starfi og/eða starfi eingöngu á vegum Landspítala. Hlutastörf sérfræðilækna verði þannig í framtíðinni undantekningin og ákvarðanir um slíkt teknar út frá þörfum sjúklinga og forsendum starfseminnar,“ skrifar Páll.
Meðal þess sem breytist verður að nýir sérfræðilæknar verða ráðnir í fullt starf, og/eða á þeim forsendum að þeir muni ekki starfa annars staðar. Undantekningar frá þessu verða eingöngu gerðar þegar starfsemin kallar á hlutastarf, til dæmis vegna mikillar sérhæfingar eða vegna vaktabyrði og reglna um hvíldartíma.
Sérfræðilæknar sem hyggjast hefja störf annars staðar eða auka við slík störf, geta ekki vænst þess að hlutastarf verði samþykkt, nema það henti þörfum sjúklinga og starfsemi og frá og með næstu áramótum munu allir yfirlæknar vera eingöngu við störf á Landspítalanum.
Sérfræðilæknar í hlutastarfi verða studdir til að deila einu starfi, en í því felst að deila ábyrgðinni á samhæfingu og upplýsingagjöf, til að starfsemin geti gengið sem líkast því að um einn starfsmann væri að ræða.
Markmið með þessum breytingum er sagt vera að meðalstarfshlutfall sérfræðilækna á LSH verði 85% í upphafi árs 2019, sem er rúmlega 70% nú, og að hlutfall í 40% starfi eða minna verði ekki yfir 10%, er 19% nú.