Ómar Valdimarsson er meðal þeirra sem er undrandi á kostnaði ríkisins vegna iðjuversins á Bakka við Húsavík.
Ómar skrifar: Það væri ekki hægt að ljúga þessu: 96% framúrkeyrsla hlýtur að vera einhverskonar met:
Gerð jarðganga undir Húsavíkurhöfða og tilheyrandi vegtengingar vegna kísilvers PCC á Bakka var um 1,7 milljarða króna, 96%, umfram upphaflega áætlun, að því er fram kemur í skriflegu svari Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar, þingmanns Miðflokksins.
Jafnframt er ekki ljóst hvort rúmlega 800 milljóna lán til hafnarsjóðs fæst endurgreitt.
Endanlegur kostnaður ríkissjóðs varð 3,5 milljarðar samkvæmt upplýsingum sem Vegagerðin veitti ráðuneytinu 5. desember síðastliðinn. Hins vegar hafði aðeins verið veitt heimild til þess að ráðstafa allt að 1,8 milljörðum króna til uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi á Bakka.
Og Grímur Atlason skrifar af sama tilefni:
Þetta er mjög eðlilegt enda um að ræða mjög metnaðarfullt umhverfislistaverk!
Síðan fáum við að þjónusta jarðgöngin næstu 100 árin (megum reyndar ekki nota þau en þannig er listin gjarnan – mátt horfa en ekki snerta).
Þökkum framsýnum þingmönnum NA kjördæmis og vinum þeirra sem tilbiðja þúfnahyggjuna!