Sanna Magdalena skrifar:
Við viljum byggja upp opinbera þjónustu í stað þess heilbrigðiskerfið sé markaðsvætt og fé ráði því hvort fólk fái þjónsutu.
Ég talaði í dag hjá ADHD samtökunum sem voru með viðburð um biðlista og bið eftir þjónustu. Samtökin lögðu fram eftirfarandi spurningar um hvernig flokkar sem bjóða fram til þings vilja leysa vandann. Ég fór fyrir hönd Sósíalistaflokks Íslands. Hér má sjá það sem ég lagði áherslu á.
Hvernig viljum við eyða biðlistum eftir greiningum og meðferð?
Við þurfum að auka fjármagn til heilbrigðiskerfisins í heild sinni, í þessu samhengi ADHD teymis hjá Landspítala og þroska- og hegðunarstöðvar sem annast greiningu barna. Sósíalistar vilja gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónusta rekna af skattfé borgaranna. Sjálf er ég greind með ADHD og greiddi sjálf vegna langra biðlista. Var svo upptekin af því að komast í gegnum námið og fá þá hjálp sem ég þurfti og það kostaði sitt. Það þarf að setja fjármagn í heilbrigðiskerfið, því það á ekki að fara eftir fjárhagsstöðu hvort þú fáir aðstoð og greiningu eða ekki. Fólk með pening á ekki að geta keypt sig fram fyrir röðina. Það á ekki að fara eftir efnahagslegri stöðu hvort þú fáir heilbrigðsþjónustu eða ekki.
Efling heilsugæslunnar: Snýr t.a.m. að greiningu barna sem fer fram á þroska- og hegðunarstöð. Þetta snýr líka að gjaldtöku á heilsugæslunni.
Áform um að fella niður komugjöld eiga bara við um dagvinnutíma og eiga sér stað í áföngum, það kostar enn 500 krónur að mæta á dagvinnutíma og þetta er oft fyrsta stopp margra við sinn lækni. Stór biti fyrir þau sem eiga ekki pening og einu sinni kostaði ekki að fara á heilsugæslu. Þetta má t.d. sjá í heilsíðuauglýsingu í blaðinu Veru frá 1991, þar voru byrjunarorðin: „Sem skattgreiðandi á Íslandi átt þú frjálsan aðgang að einu besta heilbrigðiskerfi heims. […]
“Skattamál: Þegar við tölum um að heilbrigðisþjónusta eigi að vera rekin af skattfé og skattinnheimtu, þá tölum við sósíalistar um að færa hlutina í fyrra horf og að auðstéttin greiði eðlilegan skerf til samneyslunnar. Á síðustu áratugum hefur skattbyrðin verið færð frá efstu tekjuhópum og yfir á lægri- og millitekjuhópa. Heilbrigðisþjónusta er grunnþjónusta og gjaldtaka á ekki að fara fram fyrir hana.
Við viljum byggja upp opinbera þjónustu í stað þess heilbrigðiskerfið sé markaðsvætt og fé ráði því hvort fólk fái þjónsutu. Í þessu samhengi vil ég nefna að hugmyndir um að fé fylgi fólki og að það kjósi hvert það fari til að fá lausn sinna mála, vinna gegn því markmiði að við byggjum hér upp góða almannaþjónustu sem við höfum öll aðgang að.
Hvernig á að tryggja greiðan aðgang að meðferðarúrræðum um allt land?
Á sama tíma og við þurfum að innleiða gjaldfrjálsa opinbera heilbrigðisþjónustu sem tekur mið af fjölbreyttum þörfum fólks, höfum við líka sett fram hugmyndir um sósíalíska byggðastefnu sem er mikilvæg í þessu samhengi. Það þarf að snúa hugmyndafræði nýfrjálshyggjuáranna við, þar sem áhersla á samþjöppun og skilvirkni hefur haft slæm áhrif á byggðir, þ.m.t. heilbrigðisþjónustu. Fólk á að geta sótt sér þjónustu í nærumhverfi óháð því hvar það býr á landinu. Við viljum skoða að nýta tækniframfarir þar sem við á en við þurfum að aðlaga heilbrigðisþjónustu að þörfum fólksins í stað þess að ætlast til þess að það aðlagi sig að kerfinu og ferðist langar vegalengdir til að fá þjónustu. Við þurfum að byggja upp þjónustu í byggðum landsins í stað þess að kerfið einkennist af miðstýrðri einingu.
Hvernig viljum við tryggja ókeypis greiningar og almenna greiðsluþátttöku vegna meðferðarúrræða sálfræðinga og geðlækna?
Gjaldfrjálst opinbert heilbrigðiskerfi sem er fjármagnað af skattfé. Erum með í stefnu okkar og tilboðum til kjósenda útfærðar tillögur um skattlagningu á auðugasta fólkið. Fjármagnstekjur þurfa t.d. að bera sama skatt og launatekjur. Það á ekki að vera gjaldtaka í heilbrigðisþjónustu og þegar við skoðum aðra þætti eins og sálfræðiþjónustu þá á hún líka að vera gjaldfrjáls. Þegar lágtekjufólk ber skattbyrðina og við erum ekki að skattleggja auðugusta fólkið, þá fellur kostnaðurinn fyrir heilbrigðisþjónustu á þau sem geta síst borið kostnaðinn og þar að auki er það sýn okkar sósíalista að heilbrigðisþjónusta teljist til grunnþjónustu.Lyfjakostnaður er einnig hluti af heilbrigðisþjónustu og hann á að vera að fullu niðurgreiddur og stefna okkar í heilbrigðismálum fjallar um mikilvægi þess að koma lyfjaverslun almennings á fót, með sterku gæðaeftirliti og bestu lyfjum sem völ er á. Lyfjaverslun í almannaþágu mun hafa það að markmiði að kaupa lyf á sem hagstæðustu kjörum t.d. með lyfjainnkaupum í samvinnu við nágrannalöndin og bjóða upp á bestu lyf sem völ er á í samræmi við það sem gerist í löndunum í kringum okkur. Það á ekki að bitna á fólki ef það getur ekki greitt fyrir lyfin sín.
Hvernig á að stórauka fræðslu um ADHD, aðrar raskanir og fötlun í skyldumámi kennara?
Það er mikilvægt að allir skólar bjóði upp á þann stuðning sem nemendur þurfa á að halda óháð biðlistum og greiningum. Þá þarf nátttúrulega að vera vitneskju um líðan nemenda og það gerist ekki nema með samtali og fræðslu sem byggir á röddum þeirra sem þekkja best hvað þarf að bæta. Það þarf að huga að því að kennarar hafi tíma til fræðslu og símenntunar. Menntun kennara er mjög mikilvæg enda sinna þeir einu ábyrgðarmesta starfi samfélagsins og þess vegna þarf að styðja við nám þeirra með öflugum hætti. Símenntun þarf að vera eðlilegur hluti af starfinu og kennarar þurfa tíma til að sinna henni.Líka mikilvægt að nefna að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur. Þó að þar sé ekki beint fjallað um skyldunám kennara er þar fjallað um nauðsynlega þætti sem varða réttindamiða nálgun í samfélaginu, þ.m.t. skóla. Þá þarf líka að passa að skólinn stuðli að vellíðan nemenda og starfsfólks með því að draga úr samkeppni innan skólaumhverfisins og tryggja smærri hópa í námi.