Hrafn Magnússon skrifar:
Ísland er eina landið, samkvæmt fjölþjóðlegri könnun OECD, þar sem almannatryggingakerfið greiðir ekki öllum eldri borgurum eftirlaun.
Þegar lögum um almannatryggingar var breytt á Alþingi í október 2016 féll niður eða skertist lífeyrir hjá þúsundum eldri borgara. Þetta gerðist með niðurfellingu grunnlífeyrisins, en greiðslur frá lífeyrissjóðum höfðu fram að því ekki áhrif á fjárhæð grunnlífeyrisins.
Skerðingin var mest um 7,4%. Þeir sem sættu þessum afarkostum voru aðallega opinberir starfsmenn og aðrir starfshópar sem greitt höfðu samviskusamlega alla starfsævina í skyldubundna lífeyrissjóði með samtryggingu. Athygli vakti að BSRB samþykkti þessa skerðingu.
…ættu ekki undir neinum kringumstæðum að skerða eftirlaun hjá Tryggingastofnun ríkisins.
Á ráðstefnu Alþýðusamband Íslands um velferðarkerfið sem haldin var fyrir nokkrum árum kom fram sú eindregna skoðun ræðumanna, að ekki mætti einskorða lífeyri almannatrygginga einvörðungu við þá sem verst væru settir í þjóðfélaginu. Einn fremsti fræðimaður Norðurlanda á svið velferðar- og lífeyrismála, Joakim Palme, dró í erindi sínu dökka mynd af því ástandi sem myndaðist þegar velferðarkerfi væru aðeins hugsuð sem aðstoð fyrir þá allra verst settu í þjóðfélaginu. Tekið skal fram að Joakim Palme er sonur Olaf Palme fyrrum forsætisráðherra.
Afleiðing slíks kerfis væri sú að mati Palme að velferðarkerfið væri svelt, vandkvæði tengd neikvæðri stimplun styrkþega kæmi upp auk fátæktargildra. Því meira sem lífeyrir er lágtekjumiðaður, því lægri verður upphæðin sem er til ráðstöfunar, þ.e. því meiri áhersla verður lögð á að beina lífeyri aðeins til hinna fátækustu í samfélaginu, því minni árangri nær velferðarríkið í því að draga úr ójöfnuði.
Í samræmi við þetta sjónarmið lagði Félag eldri borgara í Reykjavík því mikla áherslu á að lífeyristekjur sjóðanna ættu ekki undir neinum kringumstæðum að skerða eftirlaun hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þessum sjónarmiðum var komið kröftuglega á framfæri við Alþingi og þáverandi félagsmálaráðherra, Eygló Harðardóttur, en án nokkurs árangurs.