- Advertisement -

Marklaust frekjukast frá Granda

Stjórnendum Granda er ekkert heilagt. Þeir eru tilbúnir að leggja byggðir af, hræða saklausa og raska lífi starfsfólks sem hefur þjónað fyrirtækinu árum saman.

Best er að trúa ekki á tilviljanir. Hið minnsta ekki hjá stórfyrirtæki sem reiknar sig fram og aftur, upp og niður, allt áður en stórar ákvarðanir eru teknar. Grandi hefur meðal annars nýtt ofurgróða sinn til að breyta í rekstri. Látið smíða fleiri ísfiskstogara til að auka landvinnsluna. Það var stór ákvörðun, tekin af vandlega athuguðu máli.

Ekkert hefur breyst eða gerst sem ekki mátti reikna með. Því eru aðgerðir þeirra nú, gegn tryggasta fólki sínu, hluti af plani. Plani sem er ætlað að höfða til þeirra sem stjórna landinu. Grandi vill gengisfellingu. Sjáum til hvort Grandi nái sínu fram.

Aðgerðirnar, eða látalætin, eru til þess að gráta út gengisfellingu. Með gengisfellingu hækka nauðsynjavöru almennings, verðbólgan fer af stað, verðtryggð lán hækka, vextir hækka, óstöðugleiki hefst á ný. Kaupmátttur minnkar.

Það er ekkert að marka Grandaliðið. Trúlegast er ótti þess vegna að ekki verði efni til að borga himinháar arðgreiðslur nú einsog gert hefur verið árum saman. Það er alltof sumt.

Það er ekki vegna Granda eða ferðaþjónustunnar sem þarf að hafa áhyggjur af genginu. Það er helst vegna sprotafyrirtækjanna. Þau þegja og vinna í sínum málum. Ráðast ekki gegn heilu byggðunum í frekjukasti. Einsog Grandi gerir.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: