- Advertisement -

„Er þetta ekki frábær ríkisstjórn?“

„Tökum af honum orlofsuppbót. Tökum af honum jólabónusinn. Rífum af honum þessa bónusa fyrir það eitt að fara að lögum og borga í lífeyrissjóð.“

Guðmundur Ingi KRistinsson.

Alþingi „Ég spurði hæstvirtan félags- og vinnumarkaðsráðherra að því í gær í óundirbúnum fyrirspurnum hvort til stæði að hækka almannatryggingaþega um 23.750 á mánuði afturvirkt frá 1. febrúar, eins og var gert í hinum almennu launamarkaðssamningum. Svarið var skýrt og skorinort: Nei, það kæmi ekki til greina,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson og beindi orðum sínum til nafna síns, Guðmundar Inga Guðbandssonar.

„Og ekki kæmi heldur til greina að borga strax það sem öryrkjar eiga að fá við endurskoðun almannatryggingalaganna. Það er alveg með ólíkindum hvernig þessi ríkisstjórn fer að vegna þess að hún segir: Þessir aðilar fá hækkun um áramót. Og hvað fá þeir um áramót? Fá þeir launahækkun samkvæmt launavísitölu? Nei. Fá þeir hækkun samkvæmt launum á almennum vinnumarkaði? Nei. Þeir fá einhverja allt aðra vísitölu, neysluvísitölu, einhvern furðulegan útreikning sem gerir það að verkum að þau fá miklu minna,“ sagði þingmaðurinn og hélt áfram:

„En spáið í það: Tveir aðilar, annar er í almannatryggingakerfinu og hinn er eingöngu í lífeyrissjóðakerfinu, er með lífeyri frá Tryggingastofnun. Þeir fá báðir 10.000 kall, 10.000 kr. hækkun. Spáið í það. Sá sem er í almannatryggingakerfinu fær að halda 7.000 kalli en sá sem er í almannatryggingakerfinu og lífeyrissjóðakerfinu, hvað haldið þið að hann fái að halda úr lífeyrissjóðnum sínum, 10.000 kallinum þar? Jú, 2.600 kr. Ef hann er heppinn fær hann að halda 2.600 kr. En er það næg refsing að taka af honum nærri því 80% í skerðingar? Nei, af því að hann dirfðist að borga í lífeyrissjóð sem hann var lögþvingaður til þess að borga í. Hvað gerir ríkið þá? Refsar honum. Hann fór samkvæmt lögum og það þarf að refsa honum: Tökum af honum orlofsuppbót. Tökum af honum jólabónusinn. Rífum af honum þessa bónusa fyrir það eitt að fara að lögum og borga í lífeyrissjóð. Er þetta ekki frábær ríkisstjórn?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: