Umhverfi
Katrín Oddsdóttir lögmaður skrifaði góða og innihaldsríka grein og birti á Facebook. Ritstjórm Miðjunnar birtir geinina hér:
Nú liggur fyrir að Arctic Fish (félagið sem missti þúsundir frjórra eldislaxa úr kvíum sínum í fyrra með tilheyrandi óafturkræfum afleiðingum fyrir íslenska náttúru) er enn og aftur komið á stjá og í þessari umferð á að herja á hina óspilltu og einstöku náttúru við Snæfjallaströnd í Ísafjarðadjúpi.
Þar á bæ státa menn sig af því að „bygginarleyfi séu í höfn“ og að „seiðum verði sleppt í vor“ í héraðsfréttamiðlinum BB.
Á meðan erum við nokkuð mörg sem vitum hver sannleikurinn er. Hann er sá að Mannvirkjastofnun (HMS) hefur ekki gefið út neitt byggingarleyfi vegna sjókvíaeldis og mun ekki gera það á næstu vikum. Hann er einnig sá að umrætt eldi er á svæði sem ljósgeislar vitar hafa forgang og er þar með ólögmætt á grundvelli sjónarmiða um siglingaröryggi. Talandi um siglingaöryggi, þá heyrði ég því fleygt á fundi með þingflokki um þessi mál í morgun að Sigurður Ingi hefði skrifað undir svokallað strand- og hafveiðiskipulag þrátt fyrir að úttekt um siglingaröryggi skorti. Þetta skipulag er vegvísirinn að því sem nú er að gerast þar sem eldissvæðum er potað systematískt niður í íslenska firði svo þessi ofurríku fyrirtæki sem eru að miklu leyti í eigu norskra auðkýfinga geti haldið áfram að breiða út þessari mengandi iðju við strendur eyjunnar okkar.
Í lögum um vitamál segir „Óheimilt er að byggja hús eða mannvirki sem skyggt gætu á leiðarmerki frá sjónum á þeim boga sjóndeildarhringsins þar sem því er ætlað að þjóna sjófarendum, og hæfilega langt til beggja handa. Getur Vegagerðin látið rífa húsið eða mannvirkið á kostnað eiganda þess ef brotið er á móti þessu.“
Við sem erum að berjast saman gegn þessu rugli eigum fund með forstjóra Vegagerðarinnar í næstu viku og þar er ætlunin að gera þá sjálfsögðu kröfu um að sjókvíar sem eru í andstöðu við þessa lagareglu verði fjarlægðar á kostnað eiganda.
Á sama tíma er HMS að skoða hvernig bregðast eigi við kröfu okkar um stöðvun starfsemi allra sjókvíeldisfélaga í landinu á grundvelli þeirrar staðreyndar að hver einasta kví er í raun ólögmætt mannvirki vegna skorts á byggingarleyfi. Aðstoðarforstjóri stofnunarinnar staðfesti á fundi með okkur í síðasta mánuði að mistök hafi falist í því að stofnunin skyldi ekki gera kröfu um byggingarleyfi alla tíð. Það verður að leiðrétta ólögmætið sem nú ríkir og í ljósi atburða síðustu mánaða verður HMS ekki stætt á því að mínu mati að hunsa kröfu um að virkjuð séu ákvæði mannvirkjalaga um mat á áhrif á vistkerfi, tegundir og líffræðilegan fjölbreytileika. Varúðarregla náttúruverndarlaga skipar hér einnig stóran sess en þið getið rétt ímyndað ykkur hvort það að teppaleggja strendur Íslands með sjókvíaledi samrýmist þessari meginreglu sem hljóðar svona í lögum:
„Þegar tekin er ákvörðun á grundvelli laga þessara, án þess að fyrir liggi með nægilegri vissu hvaða áhrif hún hefur á náttúruna, skal leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum. Ef hætta er á alvarlegum eða óafturkræfum náttúruspjöllum skal skorti á vísindalegri þekkingu ekki beitt sem rökum til að fresta eða láta hjá líða að grípa til skilvirkra aðgerða sem geta komið í veg fyrir spjöllin eða dregið úr þeim.“
Við á Rétti höfum tekið að okkur lögmennsku fyrir landeiganda fyrir vestan sem ætlar ekki að sætta sig við að fá eldissvæði upp við sína óspilltu sandströnd. Hann sýndi mér mynd af lúsétnum þorski sem hann veiddi síðasta sumar innan netlaga skammt frá sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. Það er í besta falli barnaskapur að halda að þessi iðnaður hafi ekki keðjuverkandi áhrif á öll okkar vistkerfi en í versta falli felst svokallað „vistmorð“ í því að halda áfram að knýgja á um fleiri og fleiri eldissvæði þegar sönnunargögn um skaðsemi gegn náttúrunni, villta laxinum og líffræðilegum fjölbreytileika hrannast upp. Við höfum öll séð myndirnar sem sýna hversu illa eldisfiskurinn er oft á tíðum leikinn. Það þarf ekki að hafa tekið námskeið í skapandi skrifum til að nota orðið dýraníð um það dæmi.
Eini aðilinn hingað til sem hefur ekki svo mikið sem svara beiðnum okkar um fund er innviðaráðherra. Hann ber þó skv. lögum nr. 4/1963 ábyrgð á ólögmætri stjórnsýslu sem undir hann heyrir og ekki síst því að hafa skrifað undir skipulag sem stenst ekki lög og er grundvöllur þess að sjókvíeldi dreifir sér nú eins og illkynja krabbamein um strendur landsins.
Ég vona innilega að hann átti sig á því hversu stór ábyrgð hans er í því hægfara en augljósa umhverfisslysi sem á sér um þessar mundir stað við Ísland í boði stjórnvalda. Alþingi hefur eftirlitsskyldu með þessum ráðherra og mætti gera mun betur í að virkja hana án tafar.
Góðu fréttirnar eru þær að það er fullt af fólki sem ætla ekki að láta þetta ganga þegjandi og hljóðalaust yfir sig og landið sitt lengur.
Þar á meðal eru landeigendur, bændur, íbúasamtök, listafólk og fullt af frjálsum félagasamtökum sem berjast fyrir náttúrunni.
Stundum er sókn besta vörnin og brátt brestur vonandi á stórsókn gegn þessum græðgisdrifna vágesti í íslenskri náttúru. Þá kannski rankar Singi blessaður við sér og áttar sig á hversu alvarlegt það er að hann hafi steinsofið á vaktinni.