Kristinn Hrafnsson:
Barnaslátrunin er svo ógeðsleg að hún á sér ekki samjöfnuð í neinum öðrum átökum á síðari tímum. Á 6-7 vikum er búið að myrða 10 sinnum fleiri börn á Gaza en hafa farist í átökum í Úkraínu á tæpum tveimur árum.
Hvað sem mönnum kann að þykja um refsiaðgerðir á íþrótta- og menningarsviðinu er algerlega nauðsynlegt að menn gæti að samræmi í aðgerðum. Annað afhjúpar hræsni, pólitíska afstöðu – jafnvel rasisma. Almennt er ég frekar á móti útilokunum af þessu tagi vegna þess að það opnar einmitt slíka valþröng í ákvörðunum – minna mál er að réttlæta aðgerðir en erfiðara að réttlæta hvenær þeim er ekki beitt. Það á við núna.
Hitt er svo líka alveg ljóst að menningin og íþróttirnar eru notaðar í pólitískum tilgangi. Á dögunum þegar Hillary kom á menningarviðburð á Íslandi var talað um menningarþvott. Þegar kemur að íþróttum má alveg tala um íþróttaþvott.
Það var ekki beðið lengi boðanna með að útiloka rússnesk fótboltalið og landslið frá alþjóðlegum viðburðum vegna innrásarinnar í Úkraínu. Bæði FIFA og UEFA settu rússneskan fótbolta í bann í febrúar á síðasta ári og þar er hann enn.
FIFA útilokaði Suður Afríku í áratugi vegna aðskilnaðarstefnu landsins eða allt frá 1961 og fram á tíunda áratug liðinnar aldar. Á tímabilinu var landið einnig dæmt úr leik á Ólympíuleikunum.
FIFA og UEFA bannaði gömlu Júgóslavíu að taka þátt í Evrópumótinu og Heimsmeistaramótinu 1992 og 1994 sem hluta af víðtækum refsiaðgerðum vegna stríðsástandsins innanlands.
Þetta eru yfirgripsmestu aðgerðirnar í boltanum á pólitískum forsendum en fleiri ríki hafa fengið á sig bann til skemmri tíma aðallega vegna tilrauna til að svindla eða fara á svig við reglur.
Það eru einnig dæmi um að pólitískt ástand var ekki talið nægjanlega alvarlegt til að kalla á refsiaðgerðir í fótboltaheiminum. Þau dæmi eru í dag fremur álitin til háborinnar skammar og nokkuð sem engin vill endurtaka.
Þannig fékk Argentína að vera með á HM 1978, tveimur árum eftir að herinn rændi völdum í landinu og hóf stórkostleg mannréttindabrot. Ekki nóg með það, Argentína fékk að halda keppnina það ár. Úrslitaleikurinn var á leikvangi steinsnar frá herfangelsinu þar sem pólitískir fangar voru í haldi og pyntaðir. Þeir sem lifðu af gátu rifjað upp að þeir heyrðu fagnaðarlætin frá leiknum inn í dýflissurnar.
Þá má ekki gleyma þeirri umdeildu ákvörðun í sögulegu ljósi að Þýskaland Nasista fékk að taka þátt í heimsmeistarakeppninni árið 1938. Á þeim tíma var öllum fullljóst hvers konar skelfilegar ofsóknir voru hafnar í landinu gegn gyðingum og öðrum, þó að helförin færi ekki á fullt skrið fyrr en í stríðinu sem Hitler hóf rúmu ári eftir Heimsmeistarakeppnina.
Þeir atburðir sem alheimurinn hefur orðið vitni að á Gaza er á þeim mælikvarða að virtir fræðimenn tala um þjóðarmorð – í það minnsta þjóðernishreinsun. Barnaslátrunin er svo ógeðsleg að hún á sér ekki samjöfnuð í neinum öðrum átökum á síðari tímum. Á 6-7 vikum er búið að myrða 10 sinnum fleiri börn á Gaza en hafa farist í átökum í Úkraínu á tæpum tveimur árum.
Ef EKKI verður gripið í taumana og Ísrael útilokað frá menningarviðburðum (t.d. Eurovision) og ef Ísraelska landsliðið og félagslið eru EKKI útilokuð frá keppnum á vegum FIFA og UEFA eru skilaboðin einfaldlega þessi: Framganga Ísraels þykir EKKI alvarlegri en Rússa í Úkraínu. Aðskilnaðarstefnan í Ísrael þykir EKKI jafn alvarleg og sama stefna í Suður-Afríku.
Slík afstaða tekur undir það viðhorf stjórnar Ísraels að líta á palestínsk börn sem lítils virði, varla mennsk og því réttdræp.
Mátið það við samviskuna.