- Advertisement -

Það er borð fyrir báru hjá bönkunum

Marinó G. Njálsson:

Náttúruhamfarirnar hafa líka kippt undan þeim fótunum fjárhagslega og gætu því lent í erfiðleikum með að standa í skilum. Allar aðgerðir vegna tekjumála og skuldamála, verða líka að ná til þeirra.

Fjárhagsmálefni Grindvíkinga hafa verið í umræðunni síðustu daga. Lánveitendur hafa eitthvað verið tregir að liðsinna fólki á annan hátt en að frysta lán. Svo vill til, að ég hef verið á kafi í að skoða eitt og annað varðandi húsnæðismál og í því grúski komst ég að eftirfarandi:

Samkvæmt gögnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verður meðalfasteignamat íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni rétt um 49 ma.kr. frá og með áramótum. Samkvæmt tölum Skattsins eru meðalskuldsetningarhlutfall áhvílandi húsnæðislána um 30%. Nú 30% af 49 ma.kr. er um 15 ma.kr. Líklega eru um 70% skuldanna verðtryggð lán og 30% nafnvaxta lán. Af þessum 70% eru líklega greiddir um 3,5% vextir og 10% af þessum 30%. Þ.e. ársvextir. Reiknum 3,5%/12 af 70% af 49 ma.kr. og fáum 100 m.kr. á mánuði og 10%/12 af 30% af 49 ma.kr. og fáum 122 m.kr. eða í það heila 222 m.kr. á mánuði. Það kostar sem sagt lánveitendur þessa upphæð að sleppa vöxtum á mánuði vegna húsnæðisskulda bæjarbúa. Þetta þyrfti að gera í 2-3 mánuði, en eftir það ætti ríkið að vera búið að stíga inn í, Náttúruhamfaratryggingar verða búnar að greiða út tjónið eða allir orðnir hoppandi glaðir heima hjá sér. (Vissulega finnst mér allt af þessu ólíklegt.) Nú skuldir heimilanna eru um 30% hærri en fjárhæð íbúðarkaupalána, þannig að efri mörk vaxtagreiðslna væri eitthvað um 300 m.kr.

Reynsla mín úr hagsmunabaráttu Hagsmunasamtaka heimilanna á árunum eftir hrun, segir mér að ekki megi bíða of lengi eftir aðgerðum og það er betra að afturkalla óþarfa aðgerðir en að bíða og sjá hvernig úr rætist. Það vill nefnilega snúast upp í það, að ekkert verður gert. Ég reikna fastlega með, að það sé borð fyrir báru hjá bönkum og lífeyrissjóðum til að bregðast hratt við með þeirri einu aðgerð sem blífur. Að fella niður allra vaxtagreiðslur (og verðbætur á vexti), þar til niðurstaða er komin um framtíð íbúanna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auk þess þurfa hús að eyðileggjast til að tjón sé greitt út.

En aðeins að Náttúruhamfaratryggingunum. Húseigendatrygging mín tryggir mér bætur vegna afnotamissis af heimilinu. Náttúruhamfaratrygging gerir ekkert slíkt, þrátt fyrir að hús séu rýmd með boðvaldi til að tryggja öryggi íbúa meðan neyðarástand vegna náttúruhamfara varir. Auk þess þurfa hús að eyðileggjast til að tjón sé greitt út.

Nú stefnir í að ekki verður hægt að búa í hluta Grindavíkur í minnst marga mánuði eða jafnvel aldrei aftur. Húsin á þessu svæði eru ekki ónýt, en hættan á því að búa í þeim getur verið mikil. Þó sig myndi hætta í dag, þá gæti það haldið áfram eftir 1 ár, 5 ár eða 10 ár. Tæknilega séð eru húsin heil, en þau eru ónothæf. Breyta þarf lögum um náttúruhamfaratryggingar þannig að þær bæti líka húsnæði sem hefur orðið ónothæft vegna náttúruvár og þær eiga líka að bæta fólki afnotamissi þannig að fólk geti þó a.m.k. komið sér fyrir í leiguhúsnæði á meðan. Það er út í hött, að fólk eigi að vera komið upp á góðvild annarra.

Loks vil ég benda á, að einhverjir vinna í Grindavík en búa ekki þar. Náttúruhamfarirnar hafa líka kippt undan þeim fótunum fjárhagslega og gætu því lent í erfiðleikum með að standa í skilum. Allar aðgerðir vegna tekjumála og skuldamála, verða líka að ná til þeirra.

Greinina birti Marinó fyrst á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: