Marinó G. Njálsson:
Fjármálahrunið árið 2008 hefur hert kverkatak fjármálafyrirtækja á fólki og fyrirtækjum. Fjármálafyrirtækin, sem settu allt á hliðina, hafa staðið uppi sem sigurvegararnir og drottna af ofríki í staðinn fyrir að þjónusta full auðmýktar.
Helgina 4. og 5. október 2008 voru haldnir neyðarfundir um alla borg. Bankarnir þrír voru komnir í þrot og eftir að Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, ákvað að þjóðnýta Glitni nokkrum dögum áður, þá opinberaðist í raun hve mikil blekking og spilling var að baki starfsemi þeirra. Í baksýnisspeglinum var ekki mikið, sem hvorki hann né stjórnvöld gátu gert á þeim tímapunkti til að bjarga bönkunum, en ég hefði þegið aðeins meiri hreinskilni og sannleika.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sást á ferð með Árna M. Mathiesen á leið til fundar við Björgólf Thor Björgólfsson, vegna þess, að sögn Geirs, að BTB væri á landinu og Geir gerði það oft að hitta hann þegar þannig stæði á. Mánudaginn 6. október kom hins vegar hið sanna í ljós, þegar Geir bað Guð að blessa Ísland í lok ræðu sem ég efast um að meira en 1% þjóðarinnar vissi hvað fjallaði um.
Fundað var 4. og 5. október í öllum fundarherbergjum og húsnæði sem fannst og niðurstaðan var, aftur að sögn Geirs, að ekki væri þörf á að gera neitt og dregið hefði úr spennunni.
Ég spurði í blogg-færslu sem ég birti 1 mínútu yfir miðnætti 6. október: „Hvaða spennu var létt?“
Í henni hef ég upp úr fréttum sjónvarps „..að búið sé að virkja lánalínur til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn, bankarnir hafi samþykkt að selja eignir í útlöndum og lífeyrissjóðirnir ætli að koma með eignir heim“.
Síðan sagði ég:
„Ég hefði gjarnan vilja sá tillögur sem væru eitthvað í þessa átt:
1. Falla frá þjóðnýtingu Glitnis.
2. Veita Glitni lánið sem bankinn bað um gegn þeim veðum sem bankinn bauð fram
3. Krefjast þess að eigendur Glitnis leggi fram jafnháa fjárhæð eða fái nýtt hlutfé inn í bankann. Gefa þeim takmarkaðan tíma til verksins. Takist það ekki verði Glitni gert að selja frá sér hluta starfseminnar
4. Efla gjaldeyrisvarasjóðinn um 8-1000 milljarða hvort heldur með beinu innstreymi eða lánalínum framlagið komi m.a. frá bönkunum, lífeyrissjóðum og ríkissjóði.
5. Krefjast þess að bankarnir efli lausafjárstöðu sína og vindi ofan af eigna- og skuldatengslum sínum. Lokað verði fyrir krossábyrgðir, þar sem einn bankinn tekur ábyrgðir í hlutabréfum annars, sem tekur ábyrgðir í hlutabréfum hins.
6. Skipt verði um alla bankastjóra í Seðlabankanum. Ráðinn verði einn yfirbankastjóri. Skilyrðið er að hann hafi mikla reynslu af bankamálum og þekki til hlítar verklag sem tíðkast hjá seðlabönkum. (Mér detta í hug menn eins og Jón Sigurðsson fyrrum ráðherra Alþýðuflokksins, Jón Sigurðsson fyrrum formaður Framsóknarflokksins og Tryggvi Pálsson fyrrum bankastjóri Verzlunarbankans og núverandi starfsmaður Seðlabankans.)
7. Herta verði reglur um áhættuútreikninga bankanna sem meðal annars gera lán til hluthafa annarra banka áhættusamari en í núgildandi reglum.
8. Bönkunum verði gert að tryggja sér varalánalínur, þannig að missir 2 – 3 meginlánveitenda geti ekki sett þá í greiðsluþrot.
9. Lausafjárálagsprófanir verði framkvæmdar reglulega samhliða öðrum álagsprófunum.
10. Síðan þarf gríðarstóran pakka til að aðstoða almenning sem lent hefur í hremmingum með lán sín. Bönkunum verði gert að leggja 200 milljarða á 5 árum í slíkan pakka. Lántakendum verði gert kleift að sækja um niðurfærslu höfuðstóls lána sinna í þennan sjóð.
11. Allt regluverk fjármálakerfisins verði endurskoðað með íslenska hagkerfið í huga.“
Atriði 1 varð að raunveruleika við fall Glitnis tveimur dögum síðar, atriði 2 varð óþarfi, en í staðinn fékk Kaupþing peninginn og hann bara furðaði upp og á sama hátt var atriði 3 óþarfi, því það var enginn Glitnir. Atriði 4 hefur smátt og smátt verið að gerast, þökk sé ferðaþjónustunni sem ofaldir kálfar eru farnir að amast yfir. Atriði 5 var hrint í framkvæmd hjá nýjum bönkum og krosseignatengsl hafa að mestu horfið. Atriði 6 var hrint í framkvæmd og núna er yfirbankastjóri hjá Seðlabankanum og síðan varabankastjórar þriggja sviða. Veit ekki betur en að atriði 7 hafi verið hrint í framkvæmd hjá nýjum bönkum, en atriði 8 held ég að sé enn í sama formi og áður. Atriði 9 hefur verið hrint í framkvæmd hjá nýjum bönkum og sérstakt svið fjármálastöðugleika innan Seðlabankans stofnað til að sjá um þetta. Atriði 10 komst ekki í framkvæmd í þeirri mynd sem ég vonaðist til og þó niðurfærsla hafi farið fram á verðtryggðum húsnæðislánum, þá fitnuðu bankarnir eins og púkinn á fjósbitanum. Varðandi atriði 11, þá hefur líklegast verið farin hálf leið yfir þá miklu heiði, en held að menn séu fastir þar í einhverjum gangnamannaskála og viti ekki hvert þeir eigi að fara.
Við erum vonandi ekki með eins brothætt bankakerfi í dag, enda hefur það ekki enn farið í útrás. Við erum hins vegar með fjármálakerfi núna, sem þrífst á græðgi. Er því miður ekkert eins dæmi í heiminum. Að bankar um allan heim, þ.m.t. á Íslandi, séu að verða ítrekað uppvísir af lögbrotum og siðleysi er skelfilegt fyrir almenning sem er þvingaður til viðskipta við þessar stofnanir. Þær hafa einkarétt á meðhöndlun fjármuna almennings og vogi einhver sér að eiga frekar pening undir kodda eða í öryggishólfi, þá er hægt að kæra viðkomandi fyrir peningaþvætti. Fjármálahrunið árið 2008 hefur hert kverkatak fjármálafyrirtækja á fólki og fyrirtækjum. Fjármálafyrirtækin, sem settu allt á hliðina, hafa staðið uppi sem sigurvegararnir og drottna af ofríki í staðinn fyrir að þjónusta full auðmýktar.
Greinina birti Marinó fyrst á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.