- Advertisement -

„Eru bara öll komin með leið á því að reyna að senda okkur í verkalýðsfangelsið?“

Sólveig Anna Jónsdóttir:

Formaðurinn ungi segist afskaplega leiður yfir þessu, vegna þess að Efling eigi rétt á að senda næstflesta fulltrúa á þing ASÍ – ung, á eftir VR. Því finnist honum bagalegt að Efling sjái sér „ekki fært að koma hérna á þingið því þau eru svo sannarlega í góðri stöðu til þess að hafa áhrif á stefnu ASÍ-UNG, ungs launafólks.“

Framvarðasveit verkalýðshreyfingarinnar er komin á ferð á ný. Ekki laust við að stjórn Eflingar hafi saknað skeytasendinga og ábendinga frá því einvalaliði landsþekkts baráttufólks og vinnuafls-spekinga sem sýnt hefur svo einbeittan betrunar-metnað gagnvart okkur. „Eru bara öll komin með leið á því að reyna að senda okkur í verkalýðsfangelsið?“ höfum við spurt hvort annað á stjórnarfundum og vorkennt svolítið verkalýðsfangelsinu, því eftir okkar bestu vitund erum við þau einu sem að höfum (meira og minna stöðugt) verið á leið þangað síðustu ár, og ef að við erum ekki einu sinni á leið þangað hver er þá eiginlega tilgangurinn með verkalýðsfangelsinu? Aumingja það.

En nú þurfum við ekki lengur að undrast áhugaleysið; búið er að kveikja á kyndlunum í dýflissunum. Jei! Mbl flytur frétt af því að engir fulltrúar frá Eflingu séu á mættir á þing ASÍ – ung. Rætt er við þungbúinn formann ungmennana sem að segir að þrátt fyrir að Efling sé ekki eina félagið innan vébanda Alþýðusambands Íslands sem að ekki taki þátt í þingi ASÍ – ung sé alveg á hreinu að Efling sé eina félagið sem geri það af einskærum andstyggilegheitum.

Formaðurinn ungi segist afskaplega leiður yfir þessu, vegna þess að Efling eigi rétt á að senda næstflesta fulltrúa á þing ASÍ – ung, á eftir VR. Því finnist honum bagalegt að Efling sjái sér „ekki fært að koma hérna á þingið því þau eru svo sannarlega í góðri stöðu til þess að hafa áhrif á stefnu ASÍ-UNG, ungs launafólks.“ Hann heldur áfram og segir ótal dæmi um að ungt fólk hafi byrjað ferill sinn hjá ASÍ-UNG en sé núna er áhrifafólk í hreyfingunni. Mbl biður hann ekki að nefna dæmi um eitthvað af þessu áhrifafólki eða áhrifin sem að það hefur haft, sem er leitt því formaðurinn hefði t.d. getað nefnt sig sjálfan sig sem frábært dæmi um ungan mann með gríðarmikinn metnað og einbeittan vilja til að hafa áhrif í íslenskri verkalýðshreyfingu. Hér er eitt eldheitt dæmi um áhrifa-viljann:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Formaðurinn ungi og áhrifasækni, Ástþór Jón Ragnheiðarson, lagði til fyrir rétt tæpu ári síðan, snemma í október 2022, að öllum kjörbréfum Eflingar á þingi Alþýðusambands Íslands yrði hafnað og fulltrúar Eflingar, annars stærsta verkalýðsfélags landsins, reknir burt eins og ótýndur ruslaralýður. Þetta gerði hann í samvinnu við Ólöfu Helgu, sem þá var í framboði til forseta ASÍ eins og einhver muna, sem og aðra félaga sína í framvarðasveit ASÍ -ung. Þetta gerði hann þrátt fyrir að kjörbréfanefnd ASÍ hefði þegar dæmt kjörbréf Eflingar lögleg og Alþýðusambandið sjálft hefði þá afstöðu að ekkert athugavert eða aðfinnanlegt væru við val Eflingar á þingfulltrúum. Þá fannst honum sko alls ekki bagalegt að sjá enga fulltrúa Eflingar, þver á móti þráði hann að þurfa ekki horfa upp á fulltrúa Elfingar á sjálfu þingi sjálfs Alþýðusambandsins.

Þarna fengum við Eflingar-fólk að sjá með eigin augum hversu mikill leiðtogi ungi formaðurinn er og sannfærðumst auðvitað strax um að hann ætti framtíðina fyrir sér innan vébanda hreyfingar vinnandi fólks. Áfram metnaðarfullir ungir íslenskir strákar sem að vilja reka burt kellingar og útlendinga sem halda að þau séu eitthvað! Vellaunaða inni-vinnan er ykkar ef þið sýnið karlmennskuna við hvert tækifæri, alveg sama þó að þversagnarkennd afstaða og almenn heimska sé ykkar aðalsmerki. Jafnvel einmitt þessvegna.

Aðeins um almenna heimsku: Ólöf Helga reyndi í byrjun september-mánuðar að klaga stjórn Eflingar til forseta ASÍ og miðstjórnar ASÍ fyrir að senda ekki fulltrúa á þing ASÍ – ung. Í erindi fyrrum frambjóðandans (til formanns Eflingar og forseta ASÍ, ásamt öðru) kom fram sá forvitnilegi og mögulega sjaldgæfi skilningur að samþykktir ASÍ – ung væru æðri lögum Eflingar og stjórn Eflingar væri í undirsettri stöðu gagnvart yfirboðurum sínum í ASÍ – ung. Fyrir Ólöfu Helgu var útskýrt (eða það reynt) af hálfu ASÍ að aðildarfélögum ASÍ væri í sjálfsvald sett hvort þau tæku þátt í starfsemi ASÍ-UNG, sæktu þing þess og svo framvegis. Að samþykktir ASÍ – ung fælu ekki í sér skyldu aðildarfélaga ASÍ til að taka þátt í starfi ASÍ – ung og trompuðu ekki umboð stjórnar Eflingar til að taka ákvarðanir um starf félagsins. Ég get ekki sagt til um hvort að útskýringarnar báru nokkurn árangur. Að fenginni reynslu tel ég það nokkuð ólíklegt.

Ég held að í Alþýðusambandi Íslands séu 44 aðildarfélög. Á þingi ASÍ – ung í dag eru fulltrúar frá 17 félögum. 27 félög að Eflingu meðtalinni sendu ekki fulltrúa á þingið. En afhverju að hugsa um þá staðreynd? Hún er í raun alls ekki relevant. Vegna þess að auðvitað vita formaður ASÍ – ung og Mbl og Ólöf Helga að þrátt fyrir að 26 önnur félög en Efling hafi ekki séð ástæðu til að senda fulltrúa á þingið er það bara Efling sem gerir það af einskærri illsku og ógeðslegum glæpavilja. Og þessvegna höfum við verkalýðsfangelsið. Og nú, eftir töluvert langa hríð er stjórn Eflingar loksins á leið þangað enn á ný. Við glæpafólkið höfum reyndar aldrei heyrt dýflissuhurðirnar skella í lás á eftir okkur, en hver veit – kannski er stundin loksins runnin upp. Kannski tekst Ástþóri, Ólöfu Helgu og Mbl loksins að koma okkur bak við luktar dyr, reykvískri borgarastétt og auðvaldi til mikillar ánægju. Þá geta Ástþór og Ólöf lagst sátt til hvílu í þeirri vitneskju að vel-launaða inni-vinnan bíður þeirra bókstaflega handan við hornið. Og hvað gæti verið betri árangur fyrir unga baráttufólkið en það?

Ég læt hér fylgja mynd af formanninum unga, ásamt plagginu fína sem hann, viðmælandi Mbl um vont eðli stjórnar Eflingar, undirritaði ásamt samstarfsfólki sínu í ASÍ – ung og öðrum úr framvarðasveit hreyfingar vinnandi fólks fyrir tæpu ári síðan, þegar að hann brann af metnaði gagnvart því mikilvæga verkefni að kasta félagsfólki Eflingar í ruslið. Það var sko aldeilis ekki bagalegt að koma að því verkefni.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: