SAMFÉLAG Túristi segir að fleiri flugfélög bjóði upp á Íslandsflug í ár en í fyrra og umsvif þeirra íslensku aukist verulega. Erlendum ferðamönnum gæti því áfram fjölgað um tugi prósenta á milli ára.
Sumaráætlun flugfélaganna hefst í lok næsta mánaðar og lýkur í enda október. Á þessu tímabili mun 21 flugfélag bjóða upp á reglulegar áætlunarferðir til og frá Keflavíkurflugvelli og miðað við hámarks sætafjölda í þotum félaganna þá verður pláss fyrir ríflega 2,8 milljónir farþega í vélunum þessa sjö mánuði. Í fyrra var sætafjöldinn ríflega tvær milljónir á sama tíma og aukningin milli ára nemur um 820 þúsund eða 40 prósentum samkvæmt útreikningum Túrista sem byggja á gögnum frá Isavia og flugfélögunum. Leiguflug á vegum ferðaskrifstofa er ekki tekið með í reikninginn.