Ragnar Þór Ingólfsson:
Það eina sem þarf er lítill en ráðandi eignahlutur í stóru hlutafélagi, þar sem lífeyrissjóðirnir eru stórir eigendur en passívir og afskiptalausir.
Hér má sjá einfalda skýringu á því hvernig lífeyrissjóðirnir okkar eru notaðir til að færa gríðarlegt fjármagn í eigu almennings yfir á fáar hendur.
Snúningarnir eru ekki flóknir. Það eina sem þarf er lítill en ráðandi eignahlutur í stóru hlutafélagi, þar sem lífeyrissjóðirnir eru stórir eigendur en passívir og afskiptalausir.
Í krafti mikils minnihluta hafa þjóðþekktir einstaklingar úr bankahruninu hreiðrað um sig í stærstu fyrirtækjunum og sýna gamalkunna takta og leika sér með eftirlaunasjóðina okkar. Og hagnast ævintýralega.
Nýleg dæmi um viðlíka snúninga eru Lindarvatnsmálið þar sem Icelandair var notað til að færa um 2 milljarða á fáar hendur, sala Símans á Mílu, Kaup Festi á Íslenskri orkumiðlun svo fátt eittt sé nefnt.
En nú virðist vera breyting á, eða menn hreinlega að ganga aðeins of langt, og lífeyrissjóðirnir virðast ætla að spyrna við fótum. Það er svo sannarlega jákvæð breyting og við vonum að þeir standi í lappirnar. Að öðrum kosti munu eigendur Fossa fjárfestingabanka ganga frá borði með 3,5 millljörðum meira en þeir sjálfir töldu virðið vera fyrir nokkrum misserum síðan.
Það yrði þá enn ein veislan í boði lífeyrisþega ef viðskiptin ganga í gegn. Ef það gerist hlýtur að blasa við að málið fari fyrir dómstóla því þetta getur ekki gengið svona lengur. Það er sú lágmarkskrafa sem verkalýðshreyfingin getur gert til þeirra sem við skipum í stjórnir sjóðanna.