- Advertisement -

Hættulegt aðgerðarleysi ríkisstjórnar

Tveim­ur árum síðar er ekk­ert að frétta og því hef­ur slökkviliðið enn eng­ar heim­ild­ir til út­tekt­ar á leigu­hús­næði…

Helga Vala Helgadóttir.
Helga Vala Helgadóttir.

„Það var sjokkerandi að horfa á sjón­varpsþátt­inn Kveik í vik­unni, þar sem fjallað var um óboðleg­ar og hættu­leg­ar bú­setuaðstæður leigj­enda á Íslandi í dag og op­in­beraðist þar full­komið and­vara­leysi stjórn­valda. Hrika­leg­ur leigu­markaður er okk­ur ljós þegar kem­ur að leigu­fjár­hæðum sem hækka stöðugt og skorti á leigu­hús­næði sem ger­ir markaðinn að þeim dýrag­arði sem raun ber vitni. Skort­ur­inn leiðir til ofsa­gróða leigu­sala sem því miður eru ekki all­ir með siðferðið sín meg­in eins og fjöl­miðlar hafa sýnt okk­ur. Með rann­sókn blaðamanna á Heim­ild­inni og svo í Kveik í gær höf­um við fengið að sjá svart á hvítu hvernig fólk neyðist til að búa, einnig með börn sín, í hús­næði sem er hættu­legt lífi þeirra og heilsu, allt í krafti of­rík­is leigu­sala á markaði enda hús­næðisneyðin slík að eng­ar bjarg­ir virðast í aug­sýn. Ekk­ert þak er á hversu mikið má rukka enda virðast rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir ekki telja slíkt við hæfi. Markaðslög­málið skal ríkja,“ segir í nýrri Moggagrein Helgu Völu Helgadóttur.

„Já, þetta eru drama­tísk­ar lýs­ing­ar en ég hvet les­end­ur til að horfa á þátt­inn og lesa ít­rekaðar umfjallanir Heim­ild­ar­inn­ar um stöðuna og það hvernig stjórn­völd hafa sýnt full­komið and­vara­leysi við smíði laga og reglna þrátt fyr­ir fög­ur fyr­ir­heit í kjöl­far brun­ans á Bræðra­borg­ar­stíg árið 2020 þegar þrjár mann­eskj­ur týndu lífi vegna bú­setu í hættu­legu leigu­hús­næði.

Eft­ir brun­ann hófst vinna Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un­ar, HMS, við til­lög­ur að úr­bót­um vegna bruna­varna í íbúðar­hús­næði. Var til­lög­un­um skilað til þáver­andi fé­lags­málaráðherra í mars 2021 þar sem lögð var til nauðsyn­leg heim­ild slökkviliðs til að taka út íbúðar­hús­næði sem breytt hef­ur verið í fjöl­býli eins og var með um­rætt hús­næði sem brann. Nú tveim­ur árum síðar er ekk­ert að frétta og því hef­ur slökkviliðið enn eng­ar heim­ild­ir til út­tekt­ar á leigu­hús­næði og var það staðfest af héraðsdómi fyrr á ár­inu þegar gerð var til­raun til að fá heim­ild til út­tekt­ar á því hús­næði sem Kveik­ur fjallaði meðal ann­ars um. Full­komið and­vara­leysi stjórn­valda get­ur þarna viðhaldið lífs­hættu­legu ástand í leigu­hús­næði. Önnur til­laga var skyldu­skrán­ing leigu­hús­næðis í gagna­grunn HMS en við slíka laga­setn­ingu fyr­ir síðustu ára­mót laumuðu stjórn­ar­flokk­arn­ir inn breyt­inga­til­lögu á síðustu stundu sem und­an­skil­ur þá leigu­sala sem leigja út íbúðir án þess að slíkt flokk­ist í at­vinnu­skyni. Með því var komið í veg fyr­ir of­an­greint eft­ir­lit á aðbúnaði sem og eft­ir­lit með leigu­verði á markaði.“

Húsnæðisráðherrann Sigurður Ingi Jóhannsson.

Grein Helgu Völu endar á þessum orðum: „Stjórn­ar­flokk­arn­ir mega ekki heyra minnst á hug­mynd­ir okk­ar í Sam­fylk­ing­unni um leigu­brems­ur eins og þekkj­ast víða um heim, sem myndu tak­marka óhóf­leg­ar hækk­an­ir leigu­fjár­hæða, enda virðist frjáls­hyggj­an ríkja meðal stjórn­ar­flokk­anna í þess­um mál­um eins og öðrum.“

Þetta kann að vera rangt. Í frétt á Miðjunni frá því í gær, þar sem vitnað er oðrétt í nýja þingræðu innviðaráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson. Hann sagði:

„Varðandi leigubremsu eða einhvers konar leiguþak eða slíkar hugmyndir þá er það einmitt eitt af því sem starfshópurinn er að skoða og það er ástæða fyrir því, því að ráðherra styður það að fara þá leið.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: