- Advertisement -

Útgáfa nýrra leyfa fyrir sjókvíaeldi verði stöðvuð

SAMEIGINLEG YFIRLÝSING:

Meingölluð skýrsla Boston Consulting Group getur ekki verið grunnur að stefnumótun fiskeldis á Íslandi.

Náttúruverndarsamtökin Landvernd, Verndarsjóður villtra laxastofna, Laxinn lifir og Íslenski náttúruverndarsjóðurinn (IWF) hvetja Alþingi til að tryggja að útgáfa nýrra leyfa fyrir sjókvíaeldi verði stöðvuð í ljósi þess að umgjörð eftirlits og náttúruvöktunar er í molum, einsog staðfest er í skýrslu ríkisendurskoðunar. Afar varhugavert að halda áfram á sömu braut vaxtar í fiskeldi í opnum sjókvíum. Nú er tímabært að staldra við, meta stöðuna, áhrifin á náttúru og umhverfi og bæta lög og reglur og styrkja eftirlit. Í því samhengi er nauðsynlegt að hafa í huga að engin dæmi eru til um að bættar reglur og eftirlit hafi komið í veg fyrir umhverfisskaða eldis í opnum sjókvíum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hvernig skal haga framtíð fiskeldis við Ísland er hægt að skoða eftir endurbætur á lögum og reglum er lokið þar sem haft verður að leiðarljósi að umhverfi og lífríki Íslands beri ekki skaða af starfseminni.

Óraunhæfar sviðsmyndir

Það er mat ofangreindra náttúruverndarsamtaka að skýrsla alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi, sem gerð var að ósk matvælaráðuneytisins, sé svo gölluð að hún geti ekki þjónað sem grunnur að stefnumótun fiskeldis á Íslandi til framtíðar.Í skýrslunni eru settar fram þrjár sviðsmyndir sem allar eru óraunhæfar og þar eru ýmsar rangfærslur, hæpnar fullyrðingar og upplýsingar lagðar fram án þess að fyrir þeim séu tilgreindar heimildir.

Skýrslan fjallar nær eingöngu um viðskiptalegar forsendur eldis en vanrækir að skoða og meta umhverfislegar forsendur, sem til lengri tíma eru grundvöllur slíkrar starfsemi. Á löngum köflum er texti skýrslunnar hreinræktuð réttlæting á því að láta mengandi skaðlegan iðnað vaxa á kostnað umhverfis og lífríkis Íslands. Þá er gengið út frá því að laxeldi í sjó og á landi geti vaxið gríðarlega á næstu árum án faglegrar umfjöllunar um áhrif á aðra atvinnuvegi, losun gróðurhúsalofttegunda og orkuskipti, samfélag eða lífríkis.

Mikil vonbrigði

Við lýsum yfir miklum vonbrigðum með vinnubrögð Boston Consulting Group. Rétt er að benda á kostnaður við þessa gölluðu skýrslu er að minnsta kosti 90 milljón krónur. Til samanburðar eru opinberir styrkir, sem öll umhverfisverndarsamtök á Íslandi geta sótt um til rekstrar, í heildina 50 milljónir króna á árinu 2023.

Samtökin að baki þessari ályktun munu skila umsögn, hver fyrir sig, um skýrslu BCG í Samráðsgátt fyrir lok tilskilins frests 28. mars, þar sem benta er á og færð nánari rök fyrir þeim alvarlegu ágöllum sem tilgreindir eru hér að framan.

Yfirlýsing þessi var send Alþingi, matvælaráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og fjölmiðlum til upplýsingar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: